Ætlum ekki að spara neitt á laugardaginn

Íslensku landsliðskonurnar stóðu sig vel í dag.
Íslensku landsliðskonurnar stóðu sig vel í dag. Ljósmynd/Fimleikasamband Íslands

Fimleikakonurnar Andrea Sif Pétursdóttir og Tinna Sif Teitsdóttir voru ánægðar með frammistöðu íslenska kvennaliðsins í undanúrslitum Evrópumótsins í hópfimleikum í Bakú í dag.

Ísland fékk næsthæstu einkunnina með 53.250 stig en Sænska landsliðið var efst með sjö hundruð stigum meira, 

Ísland var efst í stökki og á trampólíni en sænska liðið stóð sig mun betur í golfæfingum. 

Úrslitin fara síðan fram á laugardaginn.

Líður frábærlega

„Okkur líður alveg frábærlega vel, þetta hefði eiginlega ekki getað gengið betur. Auðvitað er alltaf eitthvað sem hægt er að bæta, sem er bara gott fyrir laugardaginn. 

Við lendum öll stökk sem er frábært. Við getum lagað einhverja punkta og í dansi getum við bætt okkur,“ sögðu landsliðskonurnar í samtali við Fimleikasambandið. 

Er eitthvað sem þið ætlið að breyta fyrir úrslitin?

„Við erum ekki alveg með planið á hreinu. Við höfum verið að spara smá, prófa alls konar og drefa álaginu. Við ætlum ekki að spara neitt á laugardaginn, keyra okkur út.“

Ætla að horfa á unglingana

Planið hjá landsliðskonunum er að horfa á unglingana í úrslitum á morgun og sinna endurhæfingu.  

„Það er endurhæfing á morgun, eins mikið og við getum gert. Svo er fundur og við förum yfir planið. 

Við ætlum síðan að horfa á unglingana á morgun, njóta þess að vera í fríi.“

Andrea Sif og Tinna Sif sögðust á lokum ætla að keyra á þetta á laugardaginn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert