Ólympíufari dæmdur fyrir nauðganir

Antony James (t.h.) eftir keppni árið 2010.
Antony James (t.h.) eftir keppni árið 2010. AFP/Indranil Mukherjee

Fyrrverandi sundmaðurinn Antony James, sem tók þátt á Ólympíuleikunum í Lundúnum árið 2012 fyrir hönd Stóra-Bretlands, hefur verið fundinn sekur um að hafa nauðgað tveimur stúlkum undir 18 ára aldri.

James, sem er 34 ára gamall, var einnig fundinn sekur um að hafa snert eina stúlkuna með kynferðislegum hætti þegar hún var undir 16 ára aldri og fengið hina stúlkuna til þess að senda sér kynferðislegar ljósmyndir þegar hún var undir 16 ára aldri. Á Bretlandseyjum er lögaldur 16 ár.

James var dæmdur fyrir brotin fjögur fyrir rétti í heimabæ sínum Plymouth í gær en kviðdómi tókst ekki að komast að niðurstöðu í sex ákæruliðum til viðbótar, sem allir snúa sömuleiðis að kynferðisbrotum.

Saksóknari fær viku til að ákveða hvort hann óski eftir nýjum réttarhöldum fyrir ákæruliðina sex sem standa út af.

Refsing vegna brotanna fjögurra sem James var dæmdur fyrir hefur ekki verið ákveðin en sagði dómari að hann mætti eiga von á að hún verði þung.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert