Stórmeistari grunaður um símasvindl

Kirill Shevchenko.
Kirill Shevchenko. Ljósmynd/Stefan64

Kirill Shevchenko, úkraínskum stórmeistara í skák sem keppir fyrir hönd Rúmeníu, var vísað úr keppni á móti á Spáni í vikunni vegna gruns um að hann hafi notast við síma til þess að svindla.

Shevchenko, sem er 22 ára gamall, fór ótt og títt á salernið á milli leikja og þótti ansi fljótur að framkvæma næstu aðgerðir, að því er virtist án nokkurrar ígrundunar, þegar hann kom til baka.

Starfsmenn á mótinu gerðu leit á básnum sem Shevchenko hafði notað og fundu þar síma.

Gruna skipuleggjendur mótsins á Spáni hann um að hafa stuðst við forrit til þess að hjálpa sér við að ákveða næstu leiki við taflið.

Ekki snerta símann!

Skákvefurinn Chess.com greinir frá því að við símann sem fannst á salerninu hafi staðið á litlum miða: „Ekki snerta! Þessi sími hefur verið skilinn eftir svo eigandi hans geti svarað í hann á kvöldin!“

Spænski miðillinn El Mundo greinir frá því að rithöndin á miðanum væri lík rithönd Shevchenkos og að blekið í pennanum væri eins og í penna sem hann hafði notað á mótinu.

Degi fyrr hafði hreingerningamaður fundið annan síma á sama salerni, sem var komið til skipuleggjenda mótsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert