Sigurður í banastuði

Þorri Jensson og Sigurður Kristjánsson mættust í æsispennandi úrslitaleik.
Þorri Jensson og Sigurður Kristjánsson mættust í æsispennandi úrslitaleik. Ljósmynd/Aðsend

Þriðja stigamótinu í snóker lauk í gær. Mótið fór fram á bæði á Billiardbarnum og Snóker & Poolstofunni. Í úrslitaleiknum mættust tveir af bestu snókerspilurum landsins um þessar mundir, þeir Sigurður Kristjánsson og Þorri Jensson, þar sem Sigurður vann 3:2 eftir æsispennandi leik.

Sigurður lagði Ásgeir Jón Guðbjartsson að velli í undanúrslitum 3:1. Á sama tíma lenti Þorri hins vegar 0:2 undir gegn Jóni Valgeiri Björnssyni en Þorri nýtti alla sína reynslu og vann næstu þrjá ramma og þar með leikinn.

Í úrslitaleiknum byrjaði Sigurður af miklum krafti með stuði upp á 114 en mest er hægt að gera 147 í einu stuði í snóker. Þorri vann svo næsta ramma af miklu harðfylgi en Sigurður svaraði með stuði upp á 67 í næsta ramma og komst aftur yfir, 2:1.

Hinn ólseigi Þorri vann næsta ramma nokkuð sannfærandi og því allt jafnt á ný. Úrslitaramminn var svo æsispennandi þar sem þeir Sigurður og Þorri skiptust á að vera yfir. Að lokum var það Sigurður sem náði góðum endaspretti og tryggði sér sigurinn í stórskemmtilegum úrslitaleik.

Fjöldi móta fram undan

Alls tóku 23 snókerspilarar þátt í mótinu en riðlakeppni fór fram á laugardag og úrslitakeppnin í gær, sunnudag.

Það er nóg fram undan hjá Billiardssambandi Íslands en alls verða fjögur mót í nóvember, tvö í pool og tvö í snóker. Næsta mót í pool er einmitt um næstu helgi þegar spilað verður 10-ball á Billiardbarnum. Helgina á eftir verður svo fjórða stigamótið í snóker.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert