Sakar McGregor um nauðgun

Conor McGregor.
Conor McGregor. AFP/Jorge Guerrero

Írski bardagakappinn Conor McGregor er sakaður um að hafa nauðgað konu í Dyflinni árið 2018. 

McGregor mætti fyrir dóm í gær þar sem lögmaður konunnar sagði hennar hlið. Bardagakappinn neitar sök. Þá segja lögmenn hans að um fjárkúgun sé að ræða. Talið er að um tvær vikur taki til að komast að niðurstöðu í málinu.

SkySprts greinir frá en í frétt miðilsins kemur fram að McGregor og konan hafi þekkt hvort annað lengi. Þau eru frá sama hverfinu og á svipuðum aldri. 

Fóru nokkur upp á hótel

Þann 9. desember árið 2018 á hún að hafa verið að skemmta sér ásamt vinkonu sinni þegar hún hafði samband við McGregor. 

McGregor kom og sótti vinkonurnar ásamt bílstjóra sínum sem skutlaði þeim upp á Beacon Hill-hótelið. 

Þar hafi þau haldið áfram að skemmta sér en McGregor á að hafa ítrekað reynt að fá konuna með sér inn í svefnherbergi. Hún neitaði þar sem hún var í sambandi sem og á blæðingum. 

Á endanum hafi McGregor náð að fá konuna inn í herbergi með sér. Þar hélt hann henni niður í rúminu, sneri henni við og tók hana hálstaki með þeim afleiðingum að hún náði ekki andanum.

Var með fjölda skurða

Enn fremur segir lögmaður konunnar að hún hafi heimsótt móður sína morguninn eftir að atvikið átti sér stað. Þá hafi hún ákveðið að hringja á sjúkrabíl. Var hún síðan skoðuð af lækni sem staðfesti fjölda áverka á líkama hennar. 

Samkvæmt SkySports segist lögmaðurinn vera með myndir sem sýna ástandið á konunni eftir atvikið. Þá hafi hún verið marin og með fjölda skurða eftir að hafa reynt að verja sig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert