Fimm Íslandsmet litu dagsins ljós á fyrsta kvöldi Íslandsmótsins í 25 metra laug í sundi í Ásvallarlaug í Hafnarfirði í kvöld.
Símon Elías Statkevicius sló 15 ára gamalt Íslandsmet Más Árna Árnasonar í 50 metra skriðsundi er hann synti á 21,93 sekúndum. Er hann fyrsti Íslendingurinn til að synda vegalengdina undir 22 sekúndum. Hann tryggði sér í leiðinni sæti í greininni á HM í Búdapest í desember.
Birnir Freyr Hálfdánarson sló 17 ára gamalt Íslandsmet Arnar Arnarsonar í 100 metra flugsundi en hann kom í mark á 52,51 sekúndu. Met Arnar var 52,53 sekúndur. Birnir er aðeins 18 ára gamall.
Hin þrjú Íslandsmetin komu í boðsundum. Sveit SH sló 14 ára gamalt Íslandsmet í 4x200 metra skriðsundi kvenna. Sveitin synti á 8:14,55 mínútum og sló met Ægis um sjö sekúndur. Nadja Djurovic, Katja Lilja Andriysdóttir, Jóhanna Elín Guðmundsdóttir og Vala Dís Cicero skipuðu sveitina.
SH sló 17 ára Íslandsmet í 4x50 metra fjórsundi karla. Bergur Fáfnir Bjarnason, Snorri Dagur Einarsson, Birnir Freyr Hálfdánarson og Símon Elías Stekevicius syntu saman á 1:38,70 mínútu og bættu met SH frá árinu 2007 um þrjár sekúndur.
Loks bætti karlasveit SH ársgamalt Íslandsmet í 4x200 metra skriðsundi. Ýmir Chatenay Sölvason, Birnir Freyr Hálfdánarson, Magnús Víðir Jónsson og Veigar Hrafn Sigþórsson syntu á 7:17,51 sekúndu og bættu metið um heilar 13 sekúndur.
Þá tryggðu margir sundmenn sér sæti á HM í desember. Einar Margeir Ágústsson synti 100 metra fjórsund á 54,36 sekúndum og tryggði sér HM-sætið.
Hin 16 ára gamla Vala Dís Cicero gerði slíkt hið sama í 400 metra skriðsundi er hún synti á 4:15,71 mínútu.
Guðmundur Leó Rafnsson tryggði sér sæti á HM með því að synda 200 metra baksund á 1:55,97 mínútu og Snorri Dagur Einarsson í 100 metra bringusundi en hann synti í gær á 59,02 sekúndum.
Loks tryggði Jóhanna Elín Guðmundsdóttir sér sæti í 50 metra skriðsundi á HM með því að synda á 25,08 sekúndum.