Baldvin í 6. sæti á NM

Baldvin Magnússon lenti í 6. sæti.
Baldvin Magnússon lenti í 6. sæti. mbl.is/Óttar Geirsson

Norðurlandameistaramótið í víðavangshlaupum fór fram í Vantaa í Finnlandi í dag. Ísland átti sex fulltrúa.

Baldvin Magnússon, Arnar Pétursson, Stefán Kári Smárason, Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir, Íris Dóra Snorradóttir og Helga Lilja Maack tóku þátt og hlaupinn var 1,5 km hringur og hlupu karlar og konur fimm hringi eða 7,5 km og U20 hlupu þrjá hringi eða 4,5 km. Veðuraðstæður voru mjög þægilegar, um 6 gráður, þurrt og logn en nokkur bleyta í brautinni.

Baldvin var fyrstur í mark af íslensku keppendunum og kom í mark á tímanum 00:22:42 og endaði hann í 6. sæti og náði þar með besta árangri Íslendinganna í þessu hlaupi. Arnar var í 16. sæti á tímanum 00:24:26 og Stefán Kári kom 17. í mark á tímanum 00:26:07.

Íris Dóra var fyrst Íslendinganna í kvennaflokki á tímanum 00:28:56 og var hún í heildina í 14. sæti og Sigþóra Brynja kom í mark á tímanum 00:29:44 og endaði í 15. sæti.

Helga Lilja, sem keppti í U20 flokknum, kom í mark á tímanum 00:18:01 og var hún í 12. sæti í sínum flokki.

 Ísland sendi í fyrsta sinn sveit í liðakeppni karla og á erlendri grundu og endaði íslenska sveitin í 5. sæti, en það var sveit Danmerkur sem sigraði í karlaflokki. Í kvennaflokki var það sveit Noregs sem sigraði.

Sigurvegar í karla-og kvennaflokki voru Joel Ibler Lillesø frá Danmörku sem kom í mark á tímanum 00:22:23 og Ilona Mononen frá Finnlandi á tímanum 00:26:23.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert