Fjölnir gerði sér lítið fyrir og vann stórsigur gegn Íslandsmeisturum SR, 6:2, á Íslandsmóti karla í íshokkí í Egilshöll í kvöld.
Fjölnir komst í 4:0 í leiknum með mörkum frá þeim Kristjáni Kristinssyni, Viktori Mojzyszek, Viggó Hlynssyni og Liridon Dupljaku.
Hákon Magnússon og Kári Arnarsson minnkuðu muninn fyrir SR í þriðja leikhluta í 4:2 en þeir Viggó Falur Guðnason skoruðu sitt markið hvor fyrir Fjölni undir lok leikhlutans og Fjölnir fagnaði sigri.
SR er með 15 stig í efsta sæti deildarinnar, Fjölnir er með 14 stig í öðru sætinu, SA er með 12 stig í þriðja sætinu en á tvo leiki til góða á bæði lið og Skautafélag Hafnarfjarðar er með 1 stig í fjórða og neðsta sætinu.