Náði sínum besta árangri á ferlinum

Jón Erik Sigurðsson, Gauti Guðmundsson og Katla Björg Dagbjartsdóttir á …
Jón Erik Sigurðsson, Gauti Guðmundsson og Katla Björg Dagbjartsdóttir á góðri stundu. Ljósmynd/SKÍ

Jón Erik Sigurðsson, landsliðsmaður í svigi, tók á dögunum þátt í sínu fyrsta móti í vetur í Suomu í Finnlandi.

Jón Erik, sem var með rásnúmer 16, átti góða ferð og var í sjöta sæti eftir fyrri ferðina en gerði svo gott betur og náði fjórða besta tímanum í seinni og endaði í fimmta sæti.

Þar með vann hann sér inn 46.38 FIS stig, sem er hans besti árangur á ferlinum. Aðstæður voru mjög krefjandi en brekkan var ísilögð og brautin með miklum beygjum.

Í samtali við heimasíðu Skíðasambands Íslands sagðist Jón Erik eiga nóg inni en að hann væri mjög sáttur með bætingu á fyrsta mótinu á nýju keppnistímabili.

Næstu mót hjá landsliðinu í alpagreinum verða 23. - 24. nóvember og verða þau einnig í Finnlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert