Hvað á að gera í þjálfaramálum íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu?
Samningur Norðmannsins Åge Hareide rennur út í lok ársins 2025 en í honum er hins vegar uppsagnarákvæði sem KSÍ getur nýtt sér fyrir mánaðarlok.
Árangurinn hefur ekki verið upp á marga fiska; fjórir sigrar í 15 keppnisleikjum.
Auðvitað er erfitt þegar það vantar nánast alltaf nokkra af sterkustu leikmönnum þínum en hvað sem því líður verður að setja spurningarmerki við varnarleik liðsins undir stjórn Hareide.
Sama hvaða leikkerfi er notað og hvaða leikmönnum er teflt fram gengur það ekki að fá á sig tæplega tvö mörk að meðaltali í leik.
Þannig næst enginn árangur. Það er slæmt þegar liðið fær á sig mörg einstaklega klaufaleg mörk, sérstaklega þegar sóknarleikur þess gefur svo mikið tilefni til bjartsýni.
Spilamennskan hefur nefnilega mjög gjarna verið góð. Uppskeran hefur alls ekki verið í samræmi við það en óstöðugleikinn er einfaldlega of mikill, bæði meðan á leikjum stendur og milli leikja.
Bakvörður er á báðum áttum. Hareide mætti alveg taka eitt ár til viðbótar en þyrfti þá að stoppa í götin. Tilhugsunin um yngri þjálfara af „nýja“ skólanum er sömuleiðis spennandi.
Bakvörðinn má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.