Hlynur Stefánsson stóð uppi sem sigurvegari á fjórða stigamótinu í Thai matstofu mótaröðinni í pool um helgina. Keppt var í 8-ball að þessu sinni en mótinu lauk í gær á Snóker&Pool við Lágmúla. Hlynur gerði sér lítið fyrir og fór í gegnum mótið án þess að tapa leik.
Að þessu sinni var byrjað á riðlakeppni en það fyrirkomulag er nýjung í pool á þessu tímabili. Keppt var í fjórum riðlum og kepptu tvær konur að þessu sinni. Svo vildi til að þær Þórdís Ýr Snjólaugardóttir og Þórunn Þorleifsdóttir lentu saman í riðli en komust þær ekki áfram í þetta skiptið.
Í undanúrslitum mættust annars vegar Hlynur og Daði Már Guðmundsson og hafði Hlynur betur 7:3. Í hinum undanúrslitaleiknum var það hinn reyndi Agnar Olsen sem hafði betur gegn Orven Christian Destacamento, 7:4, en eins og Hlynur höfðu þeir Agnar og Orven ekki tapað leik í mótinu.
Úrslitaleiknum lauk svo með minnsta mögulega mun þegar Hlynur hafði betur 7:6 gegn Agnari og vann þar með sitt annað stigamót í vetur, sem er ekki svo slæmt af 15 ára gömlum spilara.
Framundan hjá Billiardsambandi Íslands er fimmta stigamótið í BK-kjúklingur mótaröðinni í snóker en mótið fer fram um næstu helgi á Billiardbarnum.