Eygló Fanndal Sturludóttir og Þórbergur Ernir Hlynsson hafa verið valin lyftingafólk ársins 2024 af Lyftingasambandi Íslands. Þau keppa bæði fyrir Lyftingafélag Reykjavíkur.
Eygló hefur átt stórkostlegt ár en hún hefur sett sex Íslandsmet í fullorðinsflokki á árinu. Hún varð Norðurlandameistari í -71 kg flokki kvenna og hafnaði í fjórða sæti á Heimsmeistaramótinu í Barein en þar lyfti hún 239 kg samanlagt.
Þórbergur er Íslandsmeistari í -96 kg flokki karla. Hann hreppti gullið á Norðurlandameistaramóti unglinga, 20 ára og yngri. Hann setti einnig fimm Íslandsmet í fullorðinsflokki á árinu.