Kári Arnarsson úr Skautafélagi Reykjavíkur og Sunna Björgvinsdóttir úr Södertälje í Svíþjóð hafa verið valin íshokkíkarl og íshokkíkona ársins 2024 af stjórn Íshokkísambands Íslands.
Kári var fyrirliði Íslandsmeistara karla hjá SR 2024, aðeins 22 ára gamall, og átti stóran þátt í sigri liðsins gegn SA í hnífjöfnu úrslitaeinvígi liðanna. Hann skoraði 11 mörk og átti 12 sendingar í 15 leikjum Íslandsmótsins og skoraði síðan sex mörk í fimm leikjum í úrslitakeppninni.
Sunna er uppalin hjá Skautafélagi Akureyrar en hefur síðustu árin leikið með Södertälje og staðið sig mjög vel og hefur nú verið lánuð þaðan til liðs Leksand í efstu deild í Svíþjóð. Með Södertälje skoraði hún 12 mörk og átti 21 stoðsendingu í 22 leikjum á síðasta tímabili. Þá hefur hún verið í lykilhlutverki í landsliðinu undanfarin níu ár.