Sara Ósk Stefánsdóttir og Ævarr Freyr Birgisson hafa verið valin blakkona og blakmaður ársins 2024 af Blaksambandi Íslands.
Ævarr Freyr Birgisson er uppalinn í KA og spilar með Odense í dönsku deildinni. Í ár varð hann bikar- og deildarmeistari annað árið í röð og er í lykilhlutverki í liðinu. Ævarr á að baki 48 leiki fyrir landsliðið og þetta er í fjórða sinn sem Ævarr hlýtur titilinn blakmaður ársins.
Sara Ósk Stefánsdóttir er uppalin í HK og hlýtur titilinn blakkona ársins í fyrsta sinn en hún spilar með Holte í Kaupmannahöfn. Með liðinu varð Sara Ósk Danmerkurmeistari vorið 2024 ásamt því að vera í öðru sæti í danska bikarnum.
Sara Ósk var valin besti leikmaður úrslitakeppni dönsku deildarinnar og á 31 landsleik að baki.