Má flokka Ísland sem stórþjóð?

Heimsmeistaramót karla í handknattleik hefst í janúar.
Heimsmeistaramót karla í handknattleik hefst í janúar. Ljósmynd/Kristján Orri

Má flokka Ísland sem stórþjóð? Ísland er tæplega í þeim flokki – eða hvað? Við eigum kannski eina aðferð til að skilgreina okkur í hóp stórþjóða. Getum reyndar ekki fullyrt fyrr en um miðjan apríl að sú skilgreining gangi upp.

Meðal stórmóta í íþróttum á árinu 2025 eru heimsmeistaramót karla í handknattleik í janúar, Evrópumót kvenna í fótbolta í júlí, Evrópumót karla í körfuknattleik í ágúst og september og heimsmeistaramót kvenna í handknattleik í nóvember og desember.

Aðeins tvær Evrópuþjóðir hafa tryggt sér keppnisrétt á öllum fjórum mótunum. Það eru Frakkar og Þjóðverjar, tvær óumdeildar stórþjóðir á evrópskan og heimsmælikvarða. Sama á hvaða sviði það er.

Fjórar aðrar Evrópuþjóðir eiga virkilega góða möguleika á að komast í þennan fámenna hóp og eiga lið á öllum fjórum mótunum. Hverjar eru það? Jú, Spánverjar, Pólverjar, Svíar og Íslendingar!

Fjórar þjóðir til viðbótar geta bæst í hópinn en eiga samt litla möguleika á því. Það eru Danir, Hollendingar, Portúgalar og Ítalir.

Þjóðir sem verða í mesta lagi með á þremur mótanna eru Norðmenn (öruggt), Tékkar, Slóvenar og Svisslendingar (góðar líkur), Ungverjar (sæmilegar líkur) og Króatar og Norður-Makedóníumenn (litlar líkur).

Bretar/Englendingar, Belgar og Finnar verða á tveimur mótanna, væntanlega líka Austurríkismenn og Svartfellingar. Mögulega Serbar, Litáar, Tyrkir og Ísraelar, en sennilega ekki. Svo getið þið fundið út sjálf hvaða þjóðir vantar í þessa upptalningu!

Evrópumót kvenna í fótbolta hefst í júlí.
Evrópumót kvenna í fótbolta hefst í júlí. Morgunblaðið/Arnþór Birkisson

Þetta er eiginlega galið

Þessi „ferna“ Íslands er vissulega ekki ennþá í hendi en möguleikarnir á henni eru ansi góðir. Ísland leikur á HM karla í handbolta í Króatíu og á EM kvenna í fótbolta í Sviss. Karlalandsliðið í körfubolta stendur mjög vel að vígi fyrir tvo síðustu leiki sína í febrúar og kvennalandsliðið í handbolta er afar sigurstranglegt í einvígi sínu um sæti á HM í apríl.

Við sem byggjum þessa eyju erum ekki nema tæplega 400 þúsund. Það þætti kannski ekki fréttnæmt ef Ísland ætti keppendur sem væru framarlega í fjórum einstaklingsgreinum og kæmust á stórmót í þeim.

En að svona fámenn þjóð geti átt fjögur landslið í lokakeppnum í þremur vinsælum íþróttagreinum er eiginlega galið. Og þetta er ekkert nýtt. Karlalandsliðið í handbolta hefur misst af einu stórmóti á þessari öld. Kvennalandsliðið í fótbolta er á leið á sitt fimmta Evrópumót í röð. Körfuboltalandslið karla hefur þegar náð að leika tvívegis á EM. Kvennalandsliðið í handbolta fer að öllum líkindum á sitt þriðja stórmót á jafnmörgum árum.

Og í framhaldi af þessu dreymir marga um að karlalandsliðið í fótbolta endurtaki afrekið frá 2018 og komist í lokakeppni heimsmeistaramótsins 2026. Það er torsóttara en alls ekki ómögulegt.

Í áramótablaði Morgunblaðsins, Tímamótum, fer Víðir Sigurðsson, fréttastjóri íþróttafrétta Morgunblaðsins og mbl.is, yfir þessi fjögur stórmót og við hverju má búast af íslensku landsliðunum. Blaðið kom út 28. desember.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka