Englendingurinn Luke Littler varð í kvöld yngsti heimsmeistari í sögu pílukasts þegar hann vann Hollendinginn Michael van Gerwen örugglega, 7:3, í úrslitaleik heimsmeistaramótsins í Alexandra Palace í Lundúnum.
Littler er aðeins 17 ára gamall en van Gerwen var áður yngsti heimsmeistarinn eftir að hafa unnið fyrsta heimsmeistaratitil sinn af þremur þegar hann var 24 ára gamall.
Í kvöld varð fljótt ljóst í hvað stefndi. Littler lék við hvurn sinn fingur og vann fyrstu fjögur sett. Van Gerwen klóraði í bakkann og vann fimmta sett en Littler svaraði með því að komast í 5:1.
Hollendingurinn svaraði aftur fyrir sig og minnkaði muninn í 5:2 en Littler komst einu sinni enn fjórum settum yfir í stöðunni 6:2. Van Gerwen barðist áfram í bökkum og tókst að minnka muninn í 6:3.
Það var hins vegar enski táningurinn sem vann tíunda sett, tryggði sér þar með sigurinn og um leið heimsmeistaratitilinn.
Fær Littler að launum 500.000 pund fyrir sigurinn, sem jafngildir 87,2 milljónum íslenskra króna.