Rósa vann annað árið í röð

Rósa Kristín Kristmannsdóttir
Rósa Kristín Kristmannsdóttir Ljósmynd/Íþróttasamband fatlaðra

Nýárssundmót Íþróttasambands fatlaðra fór fram í Laugardalslaug í dag þar sem Rósa Kristín Kristmannsdóttir úr Ármanni vann Sjómannabikarinn annað árið í röð.

Rósa Kristín syndir fyrir Ármann og vann besta afrek mótsins í 50 metra skriðsundi þegar hún kom í bakkann á 37,14 sekúndum og hlaut 380 stig fyrir og þar með besta afrek mótsins.

Þetta var í fertugasta sinn sem Nýárssundmótið er haldið en í ár var það með breyttu sniði. Þetta árið var opnað fyrir þátttöku 18 ára og eldri og komu allir sundmenn sem kepptu á Paralympics í París fyrir Íslands hönd að heimsækja mótið.

Már Gunnarsson leit við í borgaralegum klæðum og heilsaði upp á keppendur og þau Róbert Ísak Jónsson, Thelma Björg Björnsdóttir og Sonja Sigurðardóttir tóku öll þátt.

Jóhann Steinar formaður UMFÍ var heiðursgestur mótsins og afhenti keppendum þátttökuverðlaun sem og öll önnur verðlaun, þar með talinn Sjómannabikarinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert