Skíðasamband Íslands hefur valið Önnu Kamillu Hlynsdóttur sem snjóbrettakonu ársins 2024 og Matthías Kristinsson sem skíðamann ársins.
Anna Kamilla er fyrsta konan sem er valin snjóbrettakona ársins, en hún er tvítug og keppir fyrir Brettafélag Hafnarfjarðar.
Umfjöllun Skíðasambands Íslands um Önnu Kamillu:
Anna Kamilla sem æfir með NTG Geilo og íslenska landsliðinu er okkar allra besta snjóbrettakona. Hún hefur statt og stöðugt bætt stöðu sína á heimslista og núna er hún í 103. sæti í brettastíl og 124. sæti í risastökki á FIS lista.
Á WSPL er hún í 71. sæti í brettastíl og 98. sæti í risastökki og hefur hún unnið sér inn rétt til að taka þátt í heimsbikarmótum. Þetta er langbesti árangur sem íslensk snjóbrettakona hefur náð.
Anna Kamilla er sterk og með bakgrunn úr fimleikum sem hjálpar henni heilmikið með erfiðari tilþrifin og eins er hún rosalega hugkrökk sem er nauðsynlegt til að ná árangri í snjóbrettum.
Anna Kamilla byrjaði keppnistímabilið mjög vel þegar hún tók þátt í FIS mótum í Landgraaf í Hollandi og endaði í 2. og 3. sæti í brettastíl.
Umfjöllun SKÍ um Matthías, sem keppir fyrir Skíðafélag Ólafsfjarðar:
Matthías sem æfir einnig með NTG Geilo bætti stöðu sína verulega á heimslista á þessu ári. Hann fór frá því að vera númer 444 á heimslista í svigi í númer 198, sem er stórglæsilegur árangur og mikil framför.
Matthías æfir og keppir af miklum krafti í Noregi samhliða því að æfa og keppa með skíðalandsliði Íslands. Hann sýndi mikinn styrk á alþjóðlegum mótum erlendis í vetur þar sem hann var 18 sinnum í topp tíu, þar af fimm sinnum á palli og með tvo sigra.
Einnig byrjar hann nýtt keppnistímabilið af krafti með því að bæta punktastöðu sína í stórsvigi.