Árið hefði ekki getað verið betra

Sóley Margrét Jónsdóttir er hreykin af því að hafa hafnað …
Sóley Margrét Jónsdóttir er hreykin af því að hafa hafnað í öðru sæti í kjörinu um íþróttamann ársins sem var lýst á laugardagskvöld. mbl.is/Ólafur Árdal

Kraftlyftingakonan Sóley Margrét Jónsdóttir hafnaði í öðru sæti í kjörinu um íþróttamann ársins 2024 sem var kunngjört í Hörpu á laugardagskvöld. Knattspyrnukonan Glódís Perla Viggósdóttir bar sigur úr býtum og ólympíska lyftingakonan Eygló Fanndal Sturludóttir hafnaði í þriðja sæti í kjörinu.

Árangur Sóleyjar Margrétar á árinu var stórbrotinn. Hún varð bæði heimsmeistari og Evrópumeistari í +84 kg flokki í fullorðinsflokki, auk þess að setja heimsmet í unglingaflokki, 23 ára og yngri. Sóley Margrét er einmitt 23 ára gömul, verður 24 ára í júní, og var því að ljúka sínu síðasta tímabili þar sem hún var gjaldgeng til unglingameta.

Hún varð fyrsti íslenski heimsmeistarinn í kraftlyftingum og fyrsta íslenska konan til að lyfta yfir 700 kílóum samanlagt í íþróttinni.

„Tilfinningin er virkilega góð. Þetta er gífurlegur heiður og mikil viðurkenning fyrir gott gengi á liðnu ári,“ sagði Sóley Margrét í samtali við Morgunblaðið um hvernig það hafi verið fyrir hana að hafna í öðru sæti í kjörinu um íþróttamann ársins.

Bjóst við að vera í topp þremur

Eftir að hafa náð slíkum árangri lék blaðamanni forvitni á að vita hvort Sóley Margrét hefði búist við því að bera sigur úr býtum og verða íþróttamaður ársins í fyrsta sinn.

„Ég var með alls engar væntingar nema bara að mæta í Hörpu, njóta kvöldsins og borða frían mat,“ sagði hún og hló. „Ég bjóst samt við því að vera í einu af þremur efstu sætunum í valinu,“ bætti Sóley Margrét hreinskilin við.

Þú varðst Evrópu- og heimsmeistari í fullorðinsflokki og settir heimsmet 23 ára og yngri. Hefði árið 2024 getað orðið eitthvað mikið betra hjá þér?

„Veistu, árið hefði bara mögulega ekki getað orðið betra. Öll markmið náðust og rúmlega það! Núna verður eiginlega bara erfitt fyrir mig að ná að toppa þetta ár,“ sagði hún í léttum tón.

Á heimsmeistaramóti fullorðinna lyfti Sóley 282,5 kílóum í hnébeygju, 200 í bekkpressu og 227,5 kg. í réttstöðulyftu. Samanlagt 710 kg og allt eru þetta Íslandsmet í opnum flokki fullorðinna, ásamt því að vera heimsmet U23 ára í samanlögðu.

Viðtalið við Sóleyju má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert