Írska knattspyrnufélagið Drogheda United hefur áréttað að það tengist írska bardagakappanum Conor McGregor ekki með neinum hætti eftir að hann birti mynd af sér með leikmanni liðsins í kjölfar sigurs Drogheda í írsku bikarkeppninni.
McGregor birti mynd af sér á Instagram með frænda sínum, Warren Davis, sem var ónotaður varamaður í 2:0-sigri Drogheda á Derry í bikarúrslitum í nóvember síðastliðnum.
„Okkur barst ábending um færslu á samfélagsmiðlum í tengslum við írsku bikarkeppnina. Þeir sem eru á myndinni eru náskyldir einum leikmanna okkar, sem eins og allir aðrir leikmenn liðsins höfðu aðgengi að bikarnum ásamt fjölskyldumeðlimum á mismunandi tímapunktum.
Drogheda United tengist einstaklingnum sem birti færsluna á samfélagsmiðlum ekki með neinum hætti og sömuleiðis ekki þeim vörumerkjum sem eru nefnd í færslunni,“ sagði í tilkynningu frá írska félaginu.
McGregor var í nóvember síðastliðnum dæmdur sekur í einkamáli þar sem hann var sakaður um nauðgun og líkamsárás.
Hin 35 ára Nikita Hand sakaði hann um nauðgun og fyrir að hafa gengið í skrokk á sér á hóteli í suðurhluta Dublin í desember árið 2018.