Lét ekki veikindi stöðva sig

Jannik Sinner með kalt handklæði á meðan hlé var gert …
Jannik Sinner með kalt handklæði á meðan hlé var gert á viðureigninni í morgun. AFP/Martin Keep

Ítalinn Jannik Sinner, ríkjandi meistari á Opna ástralska meistaramótinu í tennis, hafði betur gegn Dananum Holger Rune, 3:1, í fjórðu umferð mótsins. Sinner glímdi við veikindi á meðan á viðureigninni stóð.

Bæði Sinner og Rune áttu í vandræðum með 32 gráðu hitann í Melbourne og þurfti nokkrum sinnum að gera hlé á leiknum til þess að veita þeim aðhlynningu.

Sinner vann fyrsta sett 6-3, Rune vann annað sett 3:6, Sinner vann þriðja sett einnig 6-3 og svo fjórða sett 6:2. Er hann þar með kominn í átta manna úrslit.

Undir lok annars setts og í byrjun þess þriðja sást hvernig Sinner skalf og setti köld handklæði á háls sinn.

„Mér leið ekki mjög vel. Ég vissi það fyrir leikinn að ég myndi eiga í erfiðleikum í dag. Morguninn var mjög skrítinn því ég hitaði ekki einu sinni upp í dag þar sem ég vildi reyna að vera í sem bestu standi þegar leikurinn byrjaði,“ sagði Sinner við fréttamenn eftir sigurinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert