Íslenska stúlknalandsliðið í íshokkí, skipað leikmönnum 18 ára og yngri, er með fullt hús stiga eða 6 stig eftir öruggan sigur gegn Belgíu í B-riðli 2. deildar heimsmeistaramótsins í Istanbúl í Tyrklandi í dag.
Leiknum lauk með 7:0-sigri Íslands en Friðrika Magnúsdóttir gerði sér lítið fyrir og skoraði þrennu í leiknum.
Þá skoruðu þær Kolbrún Björnsdóttir, Eva Hlynsdóttir, Magdalena Sulova og Dagný Teitsdóttir sitt markið hver fyrir íslenska liðið.
Íslenska liðið er í efsta sæti riðilsins og markatalan eftir tvo leiki er 24:0. Næsti leikur liðsins er gegn Mexíkó, þann 22. janúar, og lokaleikurinn er gegn heimakonum í Tyrklandi þann 23. janúar.