Sigurður Kristjánsson stóð uppi sem sigurvegari í 7. stigamóti mótaraðarinnar í snóker sem lauk á Billiardbarnum um helgina.
Sigurður, sem hefur nánast verið óstöðvandi í vetur, sýndi enn á ný að hann er sá besti í snóker á Íslandi í dag. Þannig hefur Sigurður unnið fimm af þeim sex stigamótum sem hann hefur tekið þátt í á tímabilinu.
Í undanúrslitum hafði Sigurður betur gegn Unnari Bragasyni, 3:0, en í hinum undanúrslitaleiknum vann Brynjar Valdimarsson 3:2-sigur á Jóni Inga Ægissyni í miklum baráttuleik.
Í úrslitaleiknum komst Sigurður í 2:0 áður en hinn þrautreyndi Brynjar minnkaði muninn í 2:1. Lengra komst Brynjar hins vegar ekki þrátt fyrir hetjulega baráttu því Sigurður vann næsta ramma og úrslitaleikinn þar með 3:1.
Næsta mót á dagskrá hjá Billiardsambandi Íslands er í pool þegar leikmenn 45 ára og eldri mætast í 9-ball á Billiardbarnum um næstu helgi.