Egyptaland verður fjórði andstæðingur Íslands á heimsmeistaramóti karla í handbolta og sá fyrsti af þremur í milliriðli. Rétt eins og Ísland hefur Egyptaland unnið alla þrjá leiki sína á mótinu til þessa og vakti athygli þegar liðið vann sannfærandi sigur á Degi Sigurðssyni og lærisveinum hans í Króatíu, 28:24, í Zagreb.
Sá sigur kom hins vegar ekki endilega á óvart þar sem Egyptaland er komið í hóp sterkustu handboltalandsliða heims. Liðið fór í átta liða úrslit Ólympíuleikanna og tapaði fyrir Spáni í framlengdum leik. Þá hefur liðið unnið sterk lið á borð við Noreg og Ungverjaland á undanförnum mánuðum og gert jafntefli við Frakkland.
Egyptaland byrjaði á að vinna Argentínu 39:25 og sigraði síðan lærisveina Arons Kristjánssonar í Barein, 35:24. Var vegferð Egypta því svipuð og hjá Íslandi í riðlakeppninni, tveir lakari andstæðingar og einn sterkur.
Egypska liðinu hefur gengið betur en því íslenska á fjórum síðustu heimsmeistaramótum og er verkefnið ærið fyrir íslenska liðið. Egyptar enduðu í 7. sæti á síðasta heimsmeistaramóti og Ísland í 12. sæti. Árið 2021 urðu Egyptar einnig í 7. sæti og Ísland í 20. sæti. Árið 2019 urðu Egyptar áttundu. og Íslendingar elleftu. Tveimur árum fyrr varð Ísland í 14. sæti og Egyptaland í 13. sæti. Ísland endaði síðast fyrir ofan Egyptaland á HM 2015 en þá varð íslenska liðið í 11. sæti og það egypska í 14. sæti.
Þrátt fyrir það hefur íslenska liðið verið með fín tök á því egypska. Ísland vann vináttuleik þeirra árið 2017, 30:27, og síðasta leik á stórmóti á HM 2015, 28:25. Þau skildu jöfn á Ólympíuleikunum árið 2008, 32:32. Egyptaland hefur ekki unnið Ísland á stórmóti frá árinu 2001, 24:22. Þá enduðu Egyptar í fjórða sæti, sem er þeirra besti árangur, í Frakklandi.
Egypska liðið er með leikmenn í stórliðum eins og Veszprém, París SG, Kielce og Montpellier. Liðið verður þó án sterkra leikmanna á borð við Ahmed Hesham, Yehia Elderaa og Hassan Kaddah en þeir eru allir að glíma við meiðsli. Eru þeir þrír af betri leikmönnum Egypta en þrátt fyrir fjarveru þeirra vann Egyptaland áðurnefndan sigur á Króatíu.
Greinina má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.