U20 ára karlalandslið Íslands í íshokkí mátti sætta sig við ósigur gegn Ástralíu, 5:4, í þriðja leik sínum í 2. deild B á heimsmeistaramótinu í Belgrad í Serbíu í dag.
Íslensku strákarnir töpuðu 2:0 fyrir Spáni og unnu Serbíu 3:2 í fyrstu tveimur leikjunum og útlitið var mjög gott lengi vel í dag.
Þeir komust í 4:1 og þannig var staðan fyrir þriðja og síðasta leikhlutann. En þá fór allt í skrúfuna, Ástralir skoruðu fjögur mörk á sjö mínútna kafla og höfðu náð forystunni, 5:4, þegar sjö mínútur voru eftir.
Ástralirnir héldu fengnum hlut og hirtu stigin þrjú.
Haukur Steinsen, Haukur Karvelsson, Ólafur Björgvinsson og Helgi Bjarnason skoruðu mörk Íslands og Haukur átti auk þess stoðsendingu.
Spánverjar eru efstir með 9 stig, Ísrael er með 6, Ísland 3, Belgía 3, Ástralía 3 og Serbía er án stiga.
Fjórði og næstsíðasti leikur Íslands er gegn Belgíu á morgun og lokaleikurinn er gegn Ísrael á laugardag.