Knattspyrnumaðurinn Radja Nainggolan var handtekinn í stórri lögregluaðgerð í Belgíu á dögunum, grunaður um að smygla kókaíni.
Það er hollenski miðillinn De Telegraaf sem greinir frá þessu en Nainggolan, sem er 36 ára gamall, er samningsbundinn Lokeren-Temse sem leikur í belgísku B-deildinni.
Miðjumaðurinn er grunaður um að smygla miklu magni af kókaíni frá Suður-Ameríku í gegnum hafnarsvæðið í Antwerp en tilgangurinn var meðal annars að koma fíkniefninu í dreifingu um Evrópu.
Bifreið hans var meðal annars gerð upptæk ásamt öðrum persónulegum munum að því er fram kemur í frétt hollenska miðilsins en málið er enn á rannsóknarstigi.
Nainggolan gerði garðinn frægan á Ítalíu þar sem hann lék lengst af með Roma og Inter Mílanó þar sem hann varð Ítalíumeistari árið 2021. Þá á hann að baki 30 A-landsleiki fyrir Belgíu þar sem hann skoraði sex mörk en hann var hluti af gullaldarkynslóð Belga.