Framkvæmdastjórn Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands gaf frá sér yfirlýsingu fyrr í dag vegna umræðu um ofbeldi.
Í yfirlýsingunni kemur fram að sambandið fordæmi allt ofbeldi í íþróttahreyfingunni.
Þá bendir framkvæmdastjórnin á að samkvæmt hegðunarviðmiðum ÍSÍ sé lögð áhersla á að þjálfarar gæti að málfari sínu og hegðun, nýti stöðu sína á uppbyggilegan hátt og beiti sér gegn öllu ofbeldi.
Yfirlýsing ÍSÍ í heild sinni:
Framkvæmdastjórn ÍSÍ fundaði 30. janúar sl. og ályktaði eftirfarandi. „Framkvæmdastjórn Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) fordæmir allt ofbeldi í íþróttahreyfingunni.
Samkvæmt hegðunarviðmiðum ÍSÍ er áhersla lögð á að þjálfarar gæti að málfari sínu og hegðun, nýti stöðu sína á uppbyggilegan hátt og beiti sér gegn öllu ofbeldi.
Því lítur framkvæmdastjórn atvik þar sem þjálfari öskrar, slær til iðkenda og/eða niðurlægir með orðum alvarlegum augum og ítrekar að slík misbeiting á valdi á ekki heima í okkar hreyfingu.
ÍSÍ vinnur að gerð Öryggis- og velferðarstefnu fyrir íþróttahreyfinguna ásamt lagabreytingum sem miða að því að auka enn frekar farsæld iðkenda og annarra sem tengjast íþróttastarfinu og skapa skýrari ramma um mál er snúa að velferð og öryggi innan hreyfingarinnar.