Fjölnir lenti ekki í neinum vandræðum með SFH þegar liðin áttust við á Íslandsmóti karla í íshokkíi í Egilshöll í gærkvöldi. Urðu lokatölur 8:0.
Fjölnir er áfram í þriðja sæti, nú með 21 stig, en SFH er í fjórða og neðsta sæti með 11 stig.
Fjölnir lagði grunninn að sigrinum með góðri fyrstu lotu en staðan var 4:0 að henni lokinni. Í annarri lotu bætti Fjölnir við þremur mörkum og svo einu marki í þriðju og síðustu lotu.
Viggó Hlynsson og Liridon Dupljaku skoruðu báðir tvö mörk fyrir Fjölni. Emil Alengaard, Hilmar Sverrisson, Hektor Hrólfsson og Kristján Kristinsson komust sömuleiðis allir á blað.