Michael Jordan Kansas-manna

Patrick Mahomes er mikilvægasti leikmaður Kansas City Chiefs.
Patrick Mahomes er mikilvægasti leikmaður Kansas City Chiefs. AFP/Jonathan Bachman

Meistarar Kansas City Chiefs gætu í Ofurskálarleiknum í New Orleans á morgun orðið fyrsta liðið í NFL-ruðningsdeildinni til að vinna þrjá titla í röð síðan deildin sameinaðist gömlu AFL-deildinni og setti Ofurskálarleikinn á laggirnar árið 1967.

Í veginum stendur sterkt lið Philadelphia Eagles.

Ástæðurnar fyrir því að þetta hefur verið svo erfitt fyrir mörg frábær lið í gegnum áratugina eru margar. Þreyta fer venjulega að segja til sín eftir þrjú löng keppnis­tímabil, sem leiðir til meiðsla og andlegra mistaka í úrslitakeppninni, og meistaraliðin eiga oft erfitt með að halda í alla lykilleikmenn sína vegna launaþaksins.

Örlögunum storkað of oft?

Eins og bent hefur verið á í þessum pistlum hefur Chiefs-liðið einhvern veginn komist í þessi úrslit, þrátt fyrir að hafa lent í mörgum hnífjöfnum leikjum allt keppnistímabilið og í nokkrum þeirra unnið á lokasekúndunum með kraftaverki eða mistökum andstæðinganna.

Spurningin er þá hvort slík heppni og kraftaverk muni renna út í leiknum á sunnudag.

Þessi lið mættust í úrslitunum fyrir tveimur árum og þá vann Chiefs, 38:35, í feikilega spennandi leik, og í fyrra marði Chiefs sigur á San Francisco 49ers, þannig að það er ekki eins og liðið hafi rúllað yfir andstæðinga sína undanfarin tvö ár. Reyndar leikur Chiefs til úrslita í fimmta sinn á sex árum, sem er einsdæmi í sögu þessara úrslitaleikja.

Bæði lið koma því inn í þennan leik með reynslu af því að keppa í Ofurskálarleiknum, en þeir leikmenn sem tekið hafa þátt í honum segja allir að það sé reynsla sem sé mjög ólík öðrum leikjum vegna umstangsins í kringum hann sem í raun hefst um leið og þessi lið vinna undanúrslitaleikina tveimur vikum áður.

Kansas hefur Mahomes

Af þessum tveimur liðum hefur Philadelphia betri leikmannahóp, og þá sérstaklega hvað varðar sóknar- og varnarlínuna. Sóknarlínan ver leikstjórnanda Eagles, Jalen Hurts, og skapar svigrúm fyrir ruðningssérfræðing liðsins, Saquon Barkley. Ef Chiefs ætlar sér sigur í þessum leik verður varnarliðið að geta haldið Barkley í skefjum – sem er hægara sagt en gert. Varnarlína Eagles er að sama skapi sterk í að stöðva ruðningsleik andstæðinganna.

Svo virðist því sem auðvelt væri að spá Eagles sigri í þessum leik, en því miður fyrir stuðningsfólk liðsins hefur það ekki Patrick Mahomes, leikstjórnanda Chiefs, á sínum snærum. Það má segja að hann sé eins og Michael Jordan fyrir Chiefs. Svo lengi sem hann er á vellinum á lið hans ávallt tækifæri á að vinna hvaða leik sem er, svo vel hefur hann leikið undanfarin ár.

Greinina má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka