Fjölnir lagði Skautafélag Akureyrar að velli eftir framlengingu og vítakeppni í kvöld á Íslandsmóti kvenna í íshokkí í Skautahöllinni á Akureyri.
Í gærkvöld var það SA sem hrósaði sigri eftir maraþonleik, 4:3, en nú fögnuðu Fjölniskonur sigri, 2:1.
Sigrún Árnadóttir kom Fjölni yfir á 12. mínútu leiksins en Silvía Björgvinsdóttir jafnaði á fyrstu mínútu í öðrum leikhluta, 1:1, og þar við sat. Ekkert var skorað í framlengingu og því þurfti að grípa til vítakeppni eins og í gær.
Nú var það Fjölnir sem hafði betur, skoraði tvisvar gegn einu í vítakeppninni, og það var Berglind Leifsdóttir sem skoraði úrslitamarkið.
Þar með er Fjölnir með 26 stig á toppi deildarinnar en SA er með 23 stig og SR er með átta stig. Ljóst er að það verða Fjölnir og SA sem leika til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn en liðin eiga eftir þrjá leiki hvort á Íslandsmótinu og bítast þar um heimaleikjaréttinn. Liðin eiga eftir að mætast einu sinni þar í Reykjavík.