Úrslitakeppnin í íshokkí karla hófst loks í dag tveimur vikum á eftir áætlun. Gömlu erkifjendurnir í SA og SR áttust við í frábærum leik í Skautahöllinni á Akureyri. SA vann leikinn 7:4 og er þá með 1:0 forustu í einvíginu.
SA komst í 1:0 en SR svaraði fljótt með tveimur mörkum og skoti í þverslána. SA-ingar virtust slegnir út af laginu um stund enda voru gestirnir að spila þá upp úr skautunum á tímabili. Akureyringum tókst þó að skora tvisvar á skömmum tíma og staðan eftir fyrsta leikhlutann var 3:2 fyrir SA.
Annar leikhlutinn einkenndist af miklum barningi og leikmenn voru í hörkubaráttu um allt svellið. Heimamenn í SA voru alltaf líklegri til að skora en það var SR sem kom inn marki og jafnaði í 3:3. Skömmu síðar fékk SA gullið tækifæri á að koma sér í forustu. Þá missti SR tvo leikmenn í refsingu þannig að aðeins þrír útispilarar SR þurftu að verjast fimm Akureyringum. Stóðu gestirnir vörnina stórvel og héldu hreinu.
Það var svo á lokamínútum leikhlutans sem SA setti þrjú mörk á augabragði og allt í einu var staðan orðin 6:3 fyrir SA.
Heimamenn héldu forskoti sínu stærstan hluta lokaleikhlutans en SR minnkaði muninn þegar rúmar fimm mínútur lifðu leiks. SA skoraði svo lokamark leiksins á lokamínútunni.
Næst mætast liðin i Reykjavík á þriðjudag.
Mörk/stoðsendingar:
SA: Gunnar Aðalgeir Arason 2/1, Uni Blöndal 0/3, Baltasar Hjálmarsson 0/3, Unnar Hafberg Rúnarsson 2/0, Jóhann Már Leifsson 2/0, Atli Þór Sveinsson 1/1, Róbert Hafberg 0/2, Orri Blöndal 0/1.
SR: Níels Hafsteinsson 2/0, Kári Arnarsson 2/0, Þorgils Eggertsson 0/2, Eduard Kascak 0/1, Alex Sveinsson 0/1, Sölvi Atlason 0/1.
Refsimínútur:
SA: 6 mín.
SR: 12 mín.