Íshokkíeinvígi SA og SR hófst með látum

Leikmenn SR að fagna marki í dag.
Leikmenn SR að fagna marki í dag. mbl.is/Egill Bjarni

Úrslita­keppn­in í ís­hokkí karla hófst loks í dag tveim­ur vik­um á eft­ir áætl­un. Gömlu erkifjend­urn­ir í SA og SR átt­ust við í frá­bær­um leik í Skauta­höll­inni á Ak­ur­eyri. SA vann leik­inn 7:4 og er þá með 1:0 for­ustu í ein­víg­inu.

SA komst í 1:0 en SR svaraði fljótt með tveim­ur mörk­um og skoti í þverslána. SA-ing­ar virt­ust slegn­ir út af lag­inu um stund enda voru gest­irn­ir að spila þá upp úr skaut­un­um á tíma­bili. Ak­ur­eyr­ing­um tókst þó að skora tvisvar á skömm­um tíma og staðan eft­ir fyrsta leik­hlut­ann var 3:2 fyr­ir SA.

Ann­ar leik­hlut­inn ein­kennd­ist af mikl­um barn­ingi og leik­menn voru í hörku­bar­áttu um allt svellið. Heima­menn í SA voru alltaf lík­legri til að skora en það var SR sem kom inn marki og jafnaði í 3:3. Skömmu síðar fékk SA gullið tæki­færi á að koma sér í for­ustu. Þá missti SR tvo leik­menn í refs­ingu þannig að aðeins þrír útispil­ar­ar SR þurftu að verj­ast fimm Ak­ur­eyr­ing­um. Stóðu gest­irn­ir vörn­ina stór­vel og héldu hreinu.

Það var svo á loka­mín­út­um leik­hlut­ans sem SA setti þrjú mörk á auga­bragði og allt í einu var staðan orðin 6:3 fyr­ir SA.

Heima­menn héldu for­skoti sínu stærst­an hluta loka­leik­hlut­ans en SR minnkaði mun­inn þegar rúm­ar fimm mín­út­ur lifðu leiks. SA skoraði svo loka­mark leiks­ins á loka­mín­út­unni.

Næst mæt­ast liðin i Reykja­vík á þriðju­dag.

Mörk/​​stoðsend­ing­ar:

SA: Gunn­ar Aðal­geir Ara­son 2/​​1, Uni Blön­dal 0/​​3, Baltas­ar Hjálm­ars­son 0/​​3, Unn­ar Haf­berg Rún­ars­son 2/​​0, Jó­hann Már Leifs­son 2/​​0, Atli Þór Sveins­son 1/​​1, Ró­bert Haf­berg 0/​​2, Orri Blön­dal 0/​​1.

SR: Ní­els Haf­steins­son 2/​​0, Kári Arn­ars­son 2/​​0, Þorgils Eggerts­son 0/​​2, Edu­ard Kascak 0/​​1, Alex Sveins­son 0/​​1, Sölvi Atla­son 0/​​1.

Refsimín­út­ur:

SA: 6 mín.

SR: 12 mín.

SA 7:4 SR opna loka
Mark Unnar Rúnarsson (2. mín.)
Mark Atli Sveinsson (13. mín.)
Mark Gunnar Arason (17. mín.)
Mark Unnar Rúnarsson (38. mín.)
Mark Jóhann Leifsson (39. mín.)
Mark Gunnar Arason (40. mín.)
Mark Jóhann Leifsson (60. mín.)
Mörk
Mark Níels Hafsteinsson (6. mín.)
Mark Níels Hafsteinsson (12. mín.)
Mark Kári Arnarsson (24. mín.)
Mark Kári Arnarsson (54. mín.)
mín.
60 Leik lokið
SA vinnur góðan 7:4 sigur í mjög skemmtileguum leik.
60 MARK! Jóhann Leifsson (SA) Mark
7:4. Keimlíkt mark hjá Jóhanni og fyrra markið hans. Hann kemst einn í gegn og afgreiðir pökkinn með bakhöndinni framhjá Jóhanni.
54 MARK! Kári Arnarsson (SR) Mark
6:4. Hvað var SA-liðið að gera þarna? Kári er skilinn einn eftir á vallarhelmingi SA og hann fær pökkinn, kemst aleinn að marki SA og skorar örugglega.
52 Bergþór Ágústsson (SA) 2 mín. brottvísun
51
SA er að seilast djúpt á bekkinn núna. Björn Már Jakobsson er á svellinu!
50
SR er hársbreidd frá því að gefa mark. Unnar nær í pökkinn en skorar ekki.
46 Alex Sveinsson (SR) 2 mín. brottvísun
43
Axel kemst einn gegn Róberti. Róbert ver í stöngina. SR fylgir svo eftir með skoti en pökkurinn spýtist framhjá marki SA.
41
SA á skot sem stefnir í skeytin. Jóhann ver.
41 Þriðji leikhluti hafinn
40 Öðrum leikhluta lokið
Þvílíkar lokamínútur hjá SA. Þrjú mörk á færibandi og hagur þeirra er vænn í 6:3 stöðu.
40 MARK! Gunnar Arason (SA) Mark
6:3. Á lokasekúndu leiktímans. Þetta var yfirvegun og Gunnar gaf sér allan þann tíma sem hann mátti til að hlaða í skot. Pökkurinn söng í skeytunum og sekúndu síðar gall í tímahorninu.
39 Þorgils Eggertsson (SR) 2 mín. brottvísun
Hann heggur á eftir leikmanni SA, sem steinligguur.
39 MARK! Jóhann Leifsson (SA) Mark
5:3. Skyndisókn. Jóhann sleppur í gegn og nær að senda pökkinn laust í bláhornið. Munurinn er tvö mörk í fyrsta skiptið í leiknum.
38 MARK! Unnar Rúnarsson (SA) Mark
4:3. Enn kemur glæsimark. Unnar fær pökkinn til sín eftir klafs og hann snýr baki í markið. Á augabragði snýr hann sér og sendir pökkinn í netið.
36
Það er jafnt í liðum á ný. SA fann engar glufur tveimur mönnum fleiri.
34 Rihards Verdins (SR) 2 mín. brottvísun
SA er tveimur mönnum fleiri.
34 Jonathan Otuoma (SR) 2 mín. brottvísun
32
Þar kom að því að leikmenn færu að kýta aðeins. Það eru stympingar framan við mark SR.
31
SR fær dauðafæri en pökkurinn fer í boga yfir merkið.
29
Það er losarabragur á þessu núna. Liðin ná lítið að byggja upp. SA er að hóta öðru marki. Jóhann stendur vaktina vel í marki SR.
27
Það er jafnt í liðum á ný.
26
Aftur kemst Ólafur í færi en Jóhann ver vel.
25 Eduard Kascak (SR) 2 mín. brottvísun
24 MARK! Kári Arnarsson (SR) Mark
3:3. Þetta var mjög slysalegt mark. Kári sneiðir pökkinn laust í Róbert og þaðan fer hann yfir línuna.
22
SA kemst í mjög gott færi. Ólafur nær skoti en Jóhann ver með kylfuskaftinu.
21 Annar leikhluti hafinn
20 Fyrsta leikhluta lokið
Stórkostlegum leikhluta er lokið og staðan er 3:2 fyrir SA.
20
SA endar þetta á skoti.
18
Þessum frábæra leikhluta fer að ljúka. Fáum við eitt mark í viðbót?
17 MARK! Gunnar Arason (SA) Mark
3:2. Baltasar hirðir pökkinn við mark SR og rennir honum út á Gunnar. Hann er 5 metra frá markinu og lætur vaða. Pökkurinn syngur í netinu.
15
Ja, hérna hér. Alex kemst einn upp að marki SA en Róbert ver naumlega frá honum. Þetta var líklega besta færi leiksins.
14
Andri Freyr er nærri búinn að skora fyrir SA eftir að hann stal pökknum bak við mark SR.
13 MARK! Atli Sveinsson (SA) Mark
2:2. Skot í stöng og inn. Þetta er geggjaður leikur.
12 Kári Arnarsson (SR) 2 mín. brottvísun
Fyrtir að tefja.
12 MARK! Níels Hafsteinsson (SR) Mark
1:2. Þvílíkt spil. Þetta var stórkostlegt mark. Pökkurinn barst manna á milli þvert fyrir mark SA og heimamenn voru bara áhorfendur, enda gátu þeir lítið gert annað en að snúa sig nánast úr hálsliðnum þar sem pökkurinn barst fram hjá þeim fram og til baka.
10 Dagur Jónasson (SA) 2 mín. brottvísun
Hann krækir.
10
SR sundurspilar heimamenn og Markús endar á að negla pökknum í markslána. Þarna sluppu heimamenn.
6 MARK! Níels Hafsteinsson (SR) Mark
1:1. Þetta er skondið mark. Þorgils átti skkot af löngu færi. Níels rétt kemur við pökkinn þegar hann flýgur fram hjá honum og síðan skrúfast hann í markið.
5
Jóhann Már á frábært upphlaup að marki SR. Hann endar aftan við það og gefur svo pökkinn út í teig. Félagar hans tveir missa af honum.
3 Gunnar Arason (SA) 2 mín. brottvísun
Fyrir eitthvað sem fór fram hjá mér.
2 MARK! Unnar Rúnarsson (SA) Mark
1:0. Unnar skautar með pökkinn af varnarsvæði SA. Hann fær enga pressu á sig og kemst í fínt skotfæri. Þyggur hann það með þökkum og dúndrar pökknum í netið.
1
SR á fyrsta skotið. Kári lætur vaða en pökkurinn fer rétt framhjá skeytunum.
1 Leikur hafinn
0
Það er fjölmenni í Skautahöllinni í dag og mikil stemning.
0
Velkomin með mbl.is í Skautahöllina á Akureyri þar sem SA og SR mætast í fyrsta úrslitaleiknum um Íslandsmeistaratitil karla 2025. Vinna þarf þrjá leiki til að verða meistari en annar leikurinn fer fram í Reykjavík á þriðjudag og sá þriðji á Akureyri á fimmtudag.
Sjá meira
Sjá allt

Lýsandi: Einar Sigtryggsson
Völlur: Skautahöllin á Akureyri

Leikur hefst
5. apr. 2025 16:45

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert