Jafnaði besta árangurinn viku síðar

Guðrún Brá Björgvinsdóttir stendur sig vel í Frakklandi.
Guðrún Brá Björgvinsdóttir stendur sig vel í Frakklandi. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Guðrún Brá Björgvinsdóttir, atvinnukylfingur úr GK, jafnaði í dag besta árangur sinn á LET Access mótaröðinni, næststerkustu mótaröð í Evrópu, þegar hún varð fjórða á Lavaux Ladies Open í Sviss. 

Í síðustu viku varð Guðrún einnig fjórða á móti í Frakklandi og fylgdi því vel eftir.

Hún lék hringina þrjá á 69, 69 og 67 höggum, eða samtals 205 höggum, og var á ellefu höggum undir pari vallarins.

Mimi Rhodes frá Englandi sigraði á 16 höggum undir pari og Billie-Jo-Smith, landa hennar, lék á sama skori. Tina Mazarino frá Noregi varð þriðja á 12 höggum undir pari og Guðrún deildi síðan fjórða sætinu með Alessiu Nobilio frá ítalíu.

Þetta var ellefta mót Guðrúnar á tímabilinu en hún er nú komin upp í 19. sæti á stigalista mótaraðarinnar.

Ragnhildur Kristinsdóttir úr GR komst líka í gegnum niðurskurðinn á mótinu og endaði í 55. sæti af 107 keppendum á 221 höggi, fimm höggum yfir pari, eftir að hafa leikið á 75, 68 og 78 höggum. Hún er í 80. sætinu á stigalista mótaraðarinnar eftir tíu mót.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert