Óvissa hjá Guðrúnu eftir síðustu holuna

Guðrún Brá Björgvinsdóttir.
Guðrún Brá Björgvinsdóttir. Ljósmynd/LET Tristan Jones

Guðrún Brá Björgvinsdóttir hefur lokið fjórða hringnum á lokaúrtökumótinu fyrir Evrópumótaröð kvenna í golfi í Marrakech í Marokkó en veit ekki hvort hún fær að halda áfram keppni og spila lokahringinn á morgun.

Guðrún lék hringinn í dag á 71 höggi, einu undir pari vallarins, en fékk skolla á síðustu holunni eftir að hafa fengið tvo fugla á síðustu þremur þar á undan.

Hún er samtals á einu höggi yfir pari og deilir 65.-70. sæti eins og er en 65 efstu konurnar halda áfram og spila lokahringinn á morgun. Margar eiga enn eftir að ljúka keppni í dag þannig að Guðrún þarf að bíða og sjá hvort hún komist áfram. Hún er réttu megin við niðurskurðarlínuna eins og staðan er núna.

Ragnhildur Kristinsdóttir er á pari í dag eftir 16 holur en það dugar henni ekki því hún er samtals á sex höggum yfir pari á fjórum dögum og er í 100. sætinu eins og  staðan er núna.

Uppfært:
Ragnhildur lauk keppni á 70 höggum í dag, tveimur höggum undir pari, en er samtals á fjórum höggum yfir pari og í 86. sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert