Gunnlaugur Árni Sveinsson úr GKG hóf í morgun keppni með Evrópuúrvali áhugakylfinga í Sameinuðu arabísku Furstadæmunum þar sem það mætir úrvalsliði Asíu og Eyjaálfu í keppni sem nefnist Bonallack Trophy.
Gunnlaugur Árni og Algot Kleen frá Svíþjóð léku saman í fjórmenningi og biðu lægri hlut fyrir mótherjum sínum frá Asíu, 2/1.
Þeir leika aftur saman í dag og þá í fjórleik en keppnisfyrirkomulagið er það sama og í Ryder Cup, keppni Bandaríkjanna og Evrópu hjá atvinnukylfingum. Keppt er áfram í fjórmenningi og fjórleik á morgun en keppninni lýkur á föstudag þegar allir 12 kylfingarnir í hvoru liði mætast í tvímenningi.
Gunnlaugur Árni er fyrstur Íslendinga til að vera valinn í úrvalslið Evrópu fyrir Bonallack Trophy. Hann leikur fyrir LSU-háskólann í Bandaríkjunum og frábær árangur hans í háskólagolfinu í haust átti stóran þátt í vali hans en Gunnlaugur hefur þar náð bestum árangri allra nýliða.
Hann sigraði m.a. á sterku háskólamóti og varð í öðru sæti á öðru móti, og hefur rokið upp heimslista áhugakylfinga.