Gunnlaugur vann í naumu tapi Evrópuúrvalsins

Gunnlaugur Árni Sveinsson stóð sig vel á Bonallack Trophy.
Gunnlaugur Árni Sveinsson stóð sig vel á Bonallack Trophy. Ljósmynd/EGA

Úrvalslið Asíu og Eyjaálfu áhugakylfinga bar sigur úr býtum gegn Evrópuúrvalinu, 16,5:15,5, í Bonallack Trop­hy í Sam­einuðu ar­ab­ísku fursta­dæmun­um á þriðja og síðasta keppnisdegi í dag. Gunnlaugur Árni Sveinsson vann sína viðureign fyrir Evrópu í tvímenningi í dag.

Staðan fyrir lokadaginn var jöfn, 10:10, eftir tvær umferðir í bæði fjórleik og fjórmenningi á fimmtudag og miðvikudag. Í dag var keppt í tvímenningi.

Gunnlaugur Árni gerði þar vel og hafði betur gegn Kartik Singh frá Indlandi. Keppt var í holukeppni þar sem mest var hægt að leika 18 holur.

Hann náði þriggja holu forskoti eftir 16. holuna og tryggði sér þannig sigurinn í viðureigninni.

Gunnlaugur er í 109. sæti á heimslista áhugakylfinga og Singh er í 126. sæti.

Evrópuúrvalið vann fjórar af viðureignum sínum í tvímenningi í dag og þremur viðureignum lauk með jafntefli. Úrvalslið Asíu og Eyjaálfu vann hins vegar fimmv viðureignir og tryggði sér þannig nauman sigur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert