David Toms gerði sé lítið fyrir og lagði Phil Mickelson, 4/2, í 3. umferð heimsmótsins í golfi sem fram fer á La Cosat vellinum í San Diego en um er að ræða holukeppni á vegum bandarísku- og evrópsku mótaraðarinnar. En Mickelson var ekki sá eini af efstu mönnum heimslistans sem féll úr leik í gær þar sem Vijay Singh tapað gegn hinum 51 árs gamla Jay Haas 3/2 og Tiger Woods pakkaði föggum sínum niður í gær eftir að hafa tapað 3/1 gegn Ástralímanninum Nick O'Hern, en Woods átti titil að verja á mótinu.
Retief Goosen frá Suður-Afríku var sá eini af efstu mönnum heimslistans sem komst áfram í 4. umferð mótsins en hann sigraði Chad Campbell 1/0 á 19. holu, en Campbell hafði fyrr um daginn lagt Miguel Angel Jimenez að velli eftir 24 holur.
Toms mætir Adam Scott í næstu umferð mótsins en Scott lagði David Howell og Sergio Garcia að velli í gær. O'Hern mætir Ian Poulter sem vann Stuart Appleby og Rory Sabbatini í gær.