Austin fór á bólakaf í vatnstorfæruna

Woody Austin er búinn að slá úr vatninu.
Woody Austin er búinn að slá úr vatninu. Reuters.

Woody Austin frá Bandaríkjunum var í aðalhlutverki á öðrum keppnisdegi Forsetabikarsins í golfi í Montreal í gær. Austin lék með David Toms í fjórleiknum í gær og fékk Austin þrjá fugla í röð á síðustu þremur holunum og tryggði ½ vinning gegn þeim Rory Sabbatini og Trevor Immelman. Staðan í keppninni er þannig að bandaríska liðið er með 7 vinninga en Alþjóðlega liðið er með 5 vinninga. Hápunktur gærdagsins var við 14 flöt þar sem að Austin var enn og aftur aðalmaðurinn. Hann reyndi að slá boltann upp úr vatnstorfæru, höggið tókst ágætlega, en hann missti jafnvægið og datt aftur fyrir sig og fór á bólakaf í vatnið.

Myndband af atvikinu.

Keppinautar hans og liðsfélagar gátu ekki leynt því að þeir höfðu gaman af atvikinu en Gary Player fyrirliði Alþjóðaliðsins var sá eini sem ekki fór að hlægja. “Ég vissi að myndavélunum var beint að mér og ég vildi ekki móðga bandaríska liðið með því að hlægja að þeim. Ég hló inn í mér og það sá það enginn,” sagði Player.

Bandarískir fjölmiðlar segja að “dýfan” hans Austin hafi verið samsuða af hæfileikum sem sundmaðurinn Michael Phelps, dýfingamaðurinn Greg Louganis og franska kylfingsins Jean van de Velde.

“Ég hef það á tilfinningunni að þetta atvik muni aldrei gleymast,” sagði Jack Nicklaus fyrirliði bandaríska liðsins í gær. “Austin mun fá að heyra þetta frá liðsfélögunum það sem eftir er, það verður gert grín að þessu, við munum hlægja og þetta er minning sem verður með okkur það sem eftir er.”

Það var kylfusveinninn Brent Henley sem skoraði á Austin að reyna að bjarga málunum með því að slá boltann upp úr vatninu. Hann hafði engu að tapa, nema kannski jafnvæginu. “Ég hafði eiginlega enga trú á því að þetta gæti gengið upp. Brent hvatti mig áfram,” sagði Austin. Hann fór úr skóm og sokkum, og bretti upp á buxurnar, líkt og Frakkinn van de Velde gerði á Opna breska meistaramótinu árið 1999 á Carnoustie.

Vinstri fóturinn á Austin var á þurru landi í brekku en sá hægri var á bólakafi í vatninu. Hann sveiflaði og höggið heppnaðist en síðan missti hann jafnvægið og féll aftur fyrir sig og andlitið fór á kaf í vatnið. “Þetta gekk ágætlega þar til að ég steig á stein á botninum og missti þar með jafnvægið. Ég lít ekkert öðruvísi út eftir þetta atvik en Scott Verplank segir að lyktin af mér sé öðruvísi,” sagði Austin í gær en hann er þekktur fyrir ýmis skemmtileg uppátæki – og þykir litríkur kylfingur.

Jim Furyk, liðsfélagi Austin, setti húfu fyrir andlitið á sér þegar Austin féll í vatnið en hann vildi ekki láta það sjást að hann væri að hlægja. “Ég komst ekki hjá því að hlægja,” sagði Furyk en þetta var í ein skiptið sem hann og Tiger Woods brostu í gær eftir að þeir töpuðu 5/4 gegn Vijay Singh og Stuart Appleby. Singh sagði í gær að Austin fengu um 8 í einkunn fyrir “dýfuna”.

Atvikið virtist ekki hafa nein áhrif á Austin þar sem hann fékk þrjá fugla í röð á síðustu þremur holunum og tryggði jafntefli í viðureign hans og David Toms gegn Immelman og Sabbatini.

Woody Austin fellur aftur fyrir sig í vatnið.
Woody Austin fellur aftur fyrir sig í vatnið. Reuters.
Woody Austin fellur í vatnið.
Woody Austin fellur í vatnið. Reuters.
Woody Austin eftir
Woody Austin eftir "sundferðina" Reuters.
Woody Austin er skemmtikraftur.
Woody Austin er skemmtikraftur. Reuters.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert