Birgir fékk óvæntan gest

Birgir Leifur Hafþórsson.
Birgir Leifur Hafþórsson. Reuters

„Mér líður vel hérna í Suður-Afríku en ég var ekki sáttur við nýja herbergisfélagann sem ég sá rétt áðan á hótelherberginu. Þetta var stærsta kónguló sem ég hef séð á minni ævi. Hún var á stærð við lítinn handbolta og þar sem ég var ekki með golfsettið uppi á herberginu bað ég starfsfólk hótelsins að fjarlægja gestinn. Ég hugsa að 3-járnið hefði dugað í þetta verkefni,“ sagði atvinnukylfingurinn Birgir Leifur Hafþórsson við Morgunblaðið í gær.

Hann hefur leik á Alfred Dunhill meistaramótinu í golfi kl. 11:10 að íslenskum tíma í dag og er þetta fyrsta mótið hjá Birgi á Evrópumótaröðinni á þessu keppnistímabili. Keppt er á Leopard Creek-vellinum sem er við hliðina á þjóðgarði og er dýralífið mjög fjölbreytt á þessum slóðum.

Birgir komst ekki í gegnum niðurskurðinn á mótinu fyrir ári en hann stefnir á að ná betri árangri og halda áfram á sömu braut frá því á lokaúrtökumótinu á Spáni. „Ég er allavega með betri aðstoðarmann í ár en í fyrra. Það er góð byrjun. Veðurspáin er einnig fín að mínu mati. Það verður skýjað og jafnvel skúrir. Hitinn í dag var t.d. rúmlega 30 stig og það verður alveg gríðarlega heitt á þessu svæði. Ég fagna því ef það verður skýjað.“ Margir þekktir kylfingar eru meðal keppenda á þessu móti og má þar nefna Ernie Els frá Suður-Afríku og Darren Clarke frá Norður-Írlandi.

Fylgst verður með gangi mála hjá Birgi á mbl.is í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert