Lars Christiansen: Sá að þeir voru farnir að þreytast

Lasse Boesen sækir að vörn Hauka á Ásvöllum í kvöld.
Lasse Boesen sækir að vörn Hauka á Ásvöllum í kvöld. mbl.is/hag

Hinn þrautreyndi hornamaður Flensburg og danska landsliðsins, Lars Christiansen, tjáði mbl.is að hann hefði búist við örlítið erfiðari leik gegn Haukum en raunin varð á í seinni hálfleik. Hann sagði jafnframt að Flensburg hafi tekið þennan leik mjög alvarlega og legið yfir myndböndum af hinum tveimur heimaleikjum Hauka í keppninni:

„Ég bjóst við meiru í síðari hálfleik vegna þess að þeir gerðu okkur mjög erfitt fyrir í upphafi leiks og þá léku þeir mjög vel. Það er ekki auðvelt að spila hérna eins og sást í leikjum Hauka gegn Zaporozhye og Veszprém. Þessi lið áttu ekki möguleika hér í Hafnarfirði. Við tókum þetta verkefni því mjög alvarlega. Mér fannst þetta vera að mjakast í rétta átt hjá okkur í fyrri hálfleik og svo small allt saman hjá okkur í síðari hálfleik og þá urðu hlutirnir auðveldari fyrir okkur en ég bjóst við.“

Christiansen segist hafa séð á leikmönnum Hauka að þeir höfðu ekki lengur trú á því að þeir gætu lagt Flensburg að velli þegar leið á leikinn: „Ég sá að þeir voru farnir að þreytast og þeir misstu trúna á að þeir gætu unnið leikinn. Mér fannst það gerast ansi snemma í síðari hálfleik því það var ennþá talsvert eftir af leiknum. Þeir eru með sterka leikmenn og nokkra efnilega sem geta leikið mjög vel. Ef þeir hefðu haft aðeins meira sjálfstraust þá hefðu þeir getað haldið betur í við okkur. Það er frekar óvenjulegt fyrir íslenskt lið. En það verður auðvitað sálrænt erfitt þegar maður fær á sig mikið af hraðaupphlaupsmörkum. Það verður einnig að segjast að varnarleikur okkar í síðari hálfleik var virkilega góður,“ sagði Christiansen sem skoraði fimm mörk í leiknum. 

Lars Christiansen einn besti hornamaður heims er í liði Flensburg.
Lars Christiansen einn besti hornamaður heims er í liði Flensburg. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert