Naturhouse Ciudad de Logrono vann í kvöld mjög öruggan sigur á Haukum, 34:24, í fyrri viðureign liðanna í 16-liða úrslitum EHF-bikars karla í handknattleik sem fram fór í Logrono á Spáni.
Liðin mætast aftur á sama stað annað kvöld og von Hauka um að komast áfram er orðin mjög veik.
Haukar áttu erfitt uppdráttar í kvöld og lið Naturhouse tók völdin strax í byrjun leiks. Staðan var orðin 8:2 eftir fimm mínútna leik og Haukar lentu í miklum vandræðum með 5/1 vörn heimamanna. Þá réðu þeir lítið við hávaxinn línumann Naturhouse, Ángel Romero, sem skoraði 9 mörk í leiknum.
Munurinn hélst þessi út hálfleikinn. Varnarleikur Hauka batnaði þegar leið á hálfleikinn og sóknarleikur Naturhouse gekk ekki eins greitt. En Haukar áttu í vandræðum með að skora og aðeins Sigurbergur Sveinsson, sem átti stórleik, náði reglulega að sigrast á vörn heimaliðsins. Staðan var 15:9 í hálfleik.
Haukar lentu í enn meira basli í seinni hálfleiknum, sérstaklega með sóknarleikinn, og munurinn jókst þar til hann var orðinn tólf mörk, 29:17. Eftir það var lítið varið í leikinn sem fjaraði út á lokamínútunum. Lokatölur 34:24 og úrslitin nánast ráðin í einvígi liðanna.
Mörk Naturhouse: Romero 9, Sorrentino 6, Vigo 4, Juárez 3, Tioumentsev 3, Guardiola 3, Parra 2, Arrieta 2, Arturo 1, Amargant 1. Gurutz varði 12 skot.
Mörk Hauka: Sigurbergur Sveinsson 12, Guðmundur Árni Ólafsson 3, Freyr Brynjarsson 3, Elías Már Halldórsson 2, Björgvin Hólmgeirsson 2, Tjörvi Þorgeirsson 1, Pétur Pálsson 1. Birkir Ívar Guðmundsson varði 10 skot og Aron Eðvarðsson 6.