Burst í Safamýri

Jóhann Gunnar Einarsson sækir að vörn Valsara í Safamýrinni í …
Jóhann Gunnar Einarsson sækir að vörn Valsara í Safamýrinni í kvöld. mbl.is/Ómar Óskarsson

Framara hreinlega kjöldrógu Valsmenn í viðureign liðanna í úrvalsdeild karla í handknattleik í Safamýri í kvöld, lokatölur, 40:23. Hreinlega fáheyrðir yfirburðir voru hjá leikmönnum Fram í leiknum gegn Valsliðinu sem var hreinlega skelfilega slakt.

Staðan í hálfleik var 20:11 og mestur varð munurinn á liðunum 20 mörk. Valsmenn voru með í leiknum fyrstu átta mínúturnar. Eftir það var um einstefnu að ræða hjá Frömurum sem kræktu í annan sigur sinn í deildinni en Valur situr áfram í neðsta sæti án stiga eftir fjóra leiki. Miðað við þennan leik þá gæti orðið langt í það breytist.

Mörk Fram: Jóhann Gunnar Einarsson 11, Einar Rafn Eiðsson 9/4, Haraldur Þorvarðarson 6, Jóhann Karl Reynisson 3, Arnar Birkir Hálfdánsson 3, Magnús Stefánsson 2, Matthías Daðason 2, Halldór Jóhann Sigfússon 1, Andri Berg Haraldsson 1, Kristján Svan Kristjánsson 1, Róbert Aron Hostert 1.

Varin skot: Magnús Gunnar Erlendsson 19/1 (þaraf 6/1 til mótherja). Björn Viðar Björnsson 8 (þaraf 2 til mótherja).

Mörk Vals: Jón Björgvin Pétursson 5, Orri Freyr Gíslason 4, Anton Rúnarsson 4, Valdimar Fannar Þórsson 4/1, Einar Örn Guðmundsson 3, Finnur Ingi Stefánsson 1, Gunnar Harðarson 1, Ernir Hrafn Arnarson 1.

Varin skot: Ingvar Kristinn Guðmundsson 8 (þaraf 2 til mótherja). Friðrik Sigmarsson 1.

47. Allt óbreytt, ef eitthvað er þá hallar frekar undir fæti hjá Valsmönnum en hitt. Öll ógæfa þeirra verður leikmönnum Fram að vopni. Staðan er 32:14.

40. Júlíus þjálfari Vals tekur leikhlé og messar yfir sínum mönnum. Það hefur eflaust ekkert að segja því úrslitin eru fyrir löngu ráðin, staðan er 27:12! Þarf að hafa fleiri orð um það?

37.  Framarar halda áfram að leika sér Valsmönnum eins köttur að mús enda bjóða Valsmenn upp á það, þeir eru hreint skelfilega lélegir og sjálfstraust þeirr er nánast ekkert. Staðan er 24:12, fyrir Fram

30. Flautað hefur verið til loka fyrri hálfleiks. Valsmenn hresstust ekkert eftir leikhléið sem þeir tóku áðan. Framarar ráða lögum og lofum og ljóst að Valsmenn verða að hressast verulega, jafnt í vörn sem sókn ætli það sér að snúa erfiðri stöðu upp í sigur. Varnarleikur Vals er sem fyrri í mótinu í molum. Sóknarleikurinn á tíðum ráðleysislegur og tilviljanakenndur.
Jóhann Gunnar Einarsson er markahæstur hjá Fram með átta mörk. Einar Rafn Eiðsson hefur skorað fjögur mörk. Valdimar Fannar Þórsson er markahæstur hjá Val með fjögur mörk.

22. Valsmenn eru ráðþrota og Júlíus þjálfari þeirra tekur leikhlé. Það stendur ekki steinn yfir steini jafnt í vörn sem sókn Valsliðsins. Á sama tíma leika Framarar við hvern sinn fingur eins og gefur að skilja þegar andstæðingurinn veitir ekki meiri mótspyrnu en raun ber vitni um.

14. Jóhann Gunnar Einarsson hefur farið á kostum á upphafs mínútunum og skorað fimm mörk fyrir Framara sem náð hafa frumkvæðinu, staðan er 9:5.

6. Upphafsmínútur leiksins lofa góðu. Staðan 3:3.

Dómarar á þessum slag Reykjavíkurliðanna eru Arnar Sigurjónsson og  Svavar Ólafur Pétursson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert