Haukar fá landsliðsmarkvörð

Sara Sif Helgadóttir er gengin til liðs við Hauka.
Sara Sif Helgadóttir er gengin til liðs við Hauka. Ljósmynd/Haukar

Handknattleiksdeild Hauka hefur komist að samkomulagi við markvörðinn Söru Sif Helgadóttur um að hún leiki með liðinu næstu tvö ár.

Sara Sif kemur frá Val, þar sem hún vann þrefalt á nýafstöðnu tímabili og hafði leikið undanfarin þrjú tímabil.

Hefur Sara Sif verið á meðal sterkari markvarða úrvalsdeildarinnar undanfarin ár og var til að mynda með næstbestu hlutfallsmarkvörslu deildarinnar, 38,8 prósent, á síðasta tímabili.

Hún hefur verið viðloðin íslenska landsliðið og tók til að mynda þátt í báðum leikjum liðsins gegn Svíþjóð í undankeppni EM 2024 í febrúar og mars síðastliðnum.

„Það er mikilvægt að fá góðan markmann í okkar teymi. Haukar vilja taka næsta skref og þetta er liður í því að stækka og breikka hópinn okkar til að vera samkeppnishæf á öllum vígstöðum.

Sara Sif mun passa vel inn í okkar hóp enda með mikinn metnað og því gaman að fá svona leikmann til okkar,“ sagði Díana Guðjónsdóttir, þjálfari Hauka, í tilkynningu félagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert