Greindist með metamfetamín í blóðinu en fer ekki í bann

Nikola Portner í leik með Sviss.
Nikola Portner í leik með Sviss. AFP/Odd Andersen

Lyfjanefnd þýsku 1. deildarinnar í handknattleik hefur tekið ákvörðun um að Svisslendingnum Nikolas Portner, markverði Íslendingaliðs Magdeburg, verði ekki gerð frekari refsing þrátt fyrir að hann hafi fallið á lyfjaprófi í apríl síðastliðnum.

Metamfetamín greindist í blóði Portners í A-sýni lyfjaprófs í byjun apríl og sýndi B-sýni svo fram á sömu niðurstöðu nokkrum dögum síðar.

Svissneski landsliðsmarkvörðurinn hefur alla tíð haldið fram sakleysi sínu og hefur lyfjanefnd þýsku deildarinnar fallist á skýringar Portners um að sá möguleiki sé fyrir hendi að lyfið hafi borist í blóð hans af óþekktum ástæðum; hugsanlega hafi Portner smitast  af einhverjum sem hann umgekkst.

Málið til skoðunar hjá þýska lyfjaeftirlitinu

Samkvæmt lyfjanefndinni er Portner því frjálst að æfa og spila með Magdeburg, sem hann hafði ekki gert frá því hann féll á lyfjaprófinu í byrjun apríl.

Portner er þó ekki fyllilega sloppinn fyrir horn þar sem þýska lyfjaeftirlitið, sem svarar til Alþjóðalyfjaeftirlitsins, WADA, hefur mál hans til skoðunar og gæti hann því enn verið úrskurðaður í lengra keppnisbann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert