Hugsaði bara um að drulla mér til baka

Skarphéðinn Ívar Einarsson byrjar vel hjá Haukum.
Skarphéðinn Ívar Einarsson byrjar vel hjá Haukum. Ljósmynd/Haukar

„Fyrsta sem ég hugsaði var að drulla mér til baka,“ sagði Akureyringurinn Skarphéðinn Ívar Einarsson við mbl.is þegar hann var nýbúinn að tryggja Haukum 27:26-heimasigur á Aftureldingu í 1. umferð úrvalsdeildarinnar í handbolta á Ásvöllum.

Skarphéðinn skoraði sigurmarkið með góðu skoti fyrir utan í þann mund sem leiktíminn var að renna út. Hann kom til Hauka fyrir tímabilið frá KA og byrjar vel hjá nýju liði.

„Ég spretti eins og ég gat til baka og þegar ég heyrði lokaflautið var það geðveik tilfinning. Ég var kannski aðeins lengi í gang í kvöld en það er eðlilegt, hjá nýju félagi, en þetta var fullkominn endir á leiknum fyrir mig.“

Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann og við hæfi að sigurmarkið kæmi í blálokin.

„Þetta var jafn leikur en við vorum þremur yfir, 23:20, og þá fara þeir í sjö á sex og sprengja upp leikinn. Við vorum í smá veseni með það en svo var ógeðslega sterkt að klára þetta.“

Hann kann vel við sig hjá nýju félagi í nýjum landshluta. „Lífið hérna er mjög gott og það hefur gengið framar vonum. Þetta er skemmtilegur hópur og móralinn í liðinu er mjög góður. Þetta er fullkomin blanda,“ sagði Skarphéðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert