„Ég er búinn að vera í sturluðu formi“

Einar Birgir verst Ólafi Ægi Ólafssyni úr Haukum í kvöld.
Einar Birgir verst Ólafi Ægi Ólafssyni úr Haukum í kvöld. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Einar Birgir Stefánsson er eflaust búinn að vera í meistaraflokki KA i áratug en hann kom í sitt fyrsta viðtal eftir leik KA og Hauka í kvöld. Haukar unnu leikinn 34:26.

Staðan í hálfleik var 18:16 fyrir Hauka og náðu KA-menn að minnka muninn í eitt mark áður en allt fór í vaskinn hjá þeim og Haukar stungu hægt og rólega af.

Einar Birgir var afar góður í leiknum og skilaði bæði mörkum og fékk víti dæmd á Hauka. Hann tók líka vel á því í vörninni og var þar besti maður KA.

Einar Birgir virðist eiga stóran aðdáendaklúbb en vinir og vandamenn umkringdu hann skömmu eftir leik áður en blaðamanni tókst að ná af honum tali.

Sæll Einar. Það dugði skammt í dag að eiga svona góðan leik.

„Nei. Við töpuðum allt of mörgum boltum“

Þið voruð á skriði í lok fyrri hálfleiks, fóruð inn í hálfleikinn eftir 5:0 kafla og minnkuðuð svo muninn í eitt mark. Hvað gerðist svo?

„Ég veit ekki hvað gerðist. Það var bara klaufalegt að missa Haukana strax aftur fram úr eftir að hafa minnkað muninn úr sjö mörkum í eitt. Það kom smá kafli þar sem við misstum bara hausinn, flýttum okkur of mikið.

Við þurfum að bæta okkur og laga ýmislegt og þá held ég bara að við verðum helvíti góðir. Við þurfum að halda betri dampi allan tímann, ekki detta niður og missa liðin frá okkur. Það þarf bara að æfa meira og gera betur.“

Þú spilaðir nánast allan leikinn í dag bæði í vörn og sókn og virtist ekki blása úr nös. Ertu kominn í þitt besta form?

„Ég er búinn að vera í sturluðu formi,“ sagði Einar léttur. „Maður þarf stundum að gera þetta. Ég fékk þrjár mínútur í hvíld í dag. Þetta var ekki það mikið mál.“

Nú eru erfiðir útileikir fram undan, gegn Aftureldingu og Val. Hvernig líst þér á það?

„Bara ágætlega. Vonandi fæ ég samt Kamil til baka. Hann er með mér í línustöðunni og er mjög sterkur. Það vantar hann í púslið hjá okkur og ég hef fulla trú á því að hann breyti miklu fyrir liðið.

Við erum helvíti góðir vinir og hann þarf að koma inn í þetta hjá okkur svo ég þurfi ekki alltaf að spila svona mikið,“ voru lokaorð snillingsins Einars Birgis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert