Þýðir ekkert að hanga yfir þessum leik

Símon Michael Guðjónsson.
Símon Michael Guðjónsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þeir voru bara betri en við í dag, það er bara staðan,“ sagði Símon Michael Guðjónsson, leikmaður FH, eftir, 36:32, tap gegn HK í Kórnum í úrvalsdeild karla í handbolta í kvöld. 

„Þetta gekk ekki nógu vel í dag, í seinni hálfleik sérstaklega en líka í lokinn á fyrri hálfleik. Við áttum að fara inn í seinni með fjögur mörk en fáum þetta klaufamark á okkur í lokinn, við hefðum átt að loka leiknum fyrr,“ sagði Símon í viðtali við mbl.is eftir leikinn. 

Klaufamarkið sem Símon nefndi var glæsilegt mark beint úr miðju sem Hjörtur Ingi Halldórsson skoraði sem minnkaði muninn í tvö mörk í hálfleik.

„Vörnin í seinni hálfleik gekk ekki vel. Við vorum að fá allt of auðveld mörk á okkur,“ sagði Símon sem skoraði sjálfur sex mörk í dag gegn sínu gamla félagi.

„Jú, jú, alltaf gaman að skora en við unnum ekki í dag svo það var ekki nóg. Það þýðir samt ekkert að hanga yfir þessum leik það er bara næsti leikur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert