Æðislegt að spila með þessu liði

Blær Hinriksson í hasar á Hlíðarenda í kvöld.
Blær Hinriksson í hasar á Hlíðarenda í kvöld. Eyþór Árnason

Blær Hinriksson átti ljómandi fínan leik fyrir Aftureldingu er liðið vann sinn fyrsta sigur í úrvalsdeild karla í handbolta á leiktíðinni í kvöld. Afturelding heimsótti þá Val og fór með 34:31 útisigur heim í Mosfellsbæinn.

Afturelding tapaði með einu marki gegn Haukum í fyrstu umferðinni og er með tvö stig eftir tvo jafna og spennandi leiki.

„Það var ekki mikill munur á leikjunum. Við vorum líka klaufar í þessum leik, eins og gegn Haukunum. Við vorum með marga tapaða bolta, en andinn er til staðar. Það er það sem skiptir máli.

Það er ekki haustbragur en við erum að spila okkur í gang og fá flæðið og sjálfstraustið. Nú féll þetta með okkur, þar sem við héldum dampi heilt yfir. Slæmi kaflinn var styttri en gegn Haukum,“ sagði Blær, sem skoraði níu mörk, við mbl.is eftir leik.

Maður heldur kúlinu

Afturelding náði mest fimm marka forskoti í fyrri hálfleik, en Valsmenn komust yfir um miðjan seinni hálfleik. Mosfellingar voru svo sterkari á lokakaflanum.

„Maður er ekkert að örvænta. Maður heldur kúlinu og maður veit að leikurinn kemur til manns. Við vorum slakir og með yfirhöndina allan leikinn og það skilaði góðum sigri,“ sagði hann.

Lið Aftureldingar er nokkuð breytt á milli tímabila. Þorsteinn Leó Gunnarsson er farinn til Porto í Portúgal og Blær kominn í öðruvísi hlutverk í sókninni, eins og Birgir Steinn Jónsson. Þá átti Færeyingurinn Hallur Arason einnig góðan leik.

„Það er æðislegt að spila með þessu liði. Þorsteinn var okkar stórskytta og klettur, hann endaði flestar okkar sóknir. Við erum enn í góðu sambandi.

Núna er öðruvísi stíll yfir þessu, meiri hraði og við keyrum meira. Við Birgir endum sóknirnar meira núna. Það er geðveikt að spila með þessu liði og gaman að spila handbolta,“ sagði Blær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert