Eigum ekki að þurfa 100 mörk til að vinna hérna

Hrannar Guðmundsson
Hrannar Guðmundsson Eggert Jóhannesson

Hrannar Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar, var óánægður með að hans menn skyldu ekki taka stigin tvö sem í boði voru er þeir sóttu Eyjamenn heim í 2. umferð Olísdeildar karla í handknattleik. Lokatölur 33:31 fyrir Eyjamenn sem leiddu 18:16 í hálfleik.

„Við töpum með tveimur mörkum og það er fullt af köflum þar sem við eigum að taka þennan leik og hirða hann, sama hvort það var í fyrri hálfleik eða seinni. Við byrjuðum frábærlega og spiluðum mjög vel í upphafi en það er gríðarlega svekkjandi að vera tveimur mörkum undir í hálfleik. Í seinni hálfleik er fullt af mómentum þar sem við eigum að hirða þennan leik, endalaust af tækifærum þar sem við eigum að hirða hann.“

Hvað gerðist á lokakafla fyrri hálfleiks þar sem Eyjamenn taka völdin?

„Þetta var klaufaskapur hjá okkur og þeir refsa okkur með hraðaupphlaupum, við vorum kannski aðeins og staðir og þreyttir búnir að vera berjast við Kára og það er drullu erfitt,“ sagði Hrannar en hann var ánægður með sóknarleik síns liðs.

Hrannar Guðmundsson
Hrannar Guðmundsson Eggert Jóhannesson

„Við skorum meira en 30 mörk og klikkum á aragrúa af dauðafærum, þetta var mjög gott.“

Hvað þarf Stjarnan að gera til að vinna lið eins og ÍBV á þeirra heimavelli?

„Þetta voru of mikið af mistökum, svo þurfum við að spila betri vörn, við eigum ekki að þurfa að skora 100 mörk til að vinna hérna, þeir skora 33 mörk sem er alltof mikið. Við þurfum að vinna í varnarleiknum og það er ekkert launungarmál.“

Nokkra lykilmenn vantaði hjá ÍBV þar sem Gabríel Martinez og Róbert Sigurðarson voru veikir og Dagur Arnarsson að eignast barn með konunni sinni. Fannst Hrannari ekki vera séns á að ná tveimur stigum í leiknum?

„Þetta er Vestmannaeyjar, þetta er algjör klisja, stundum þjappar það líka mönnum saman þegar einhverjir eru frá. ÍBV er með geggjaðan hóp, það eru engir aukvisar sem koma inn í hópinn, það kom atvinnumaður inn í hópinn vegna þessara forfalla, ég gef nú lítið fyrir það. Auðvitað vantaði einhverja gæja hjá þeim, frábæra stráka, þeir eru bara með það góðan hóp að einn eða tveir menn til eða frá breyta engu fyrir svona lið,“ sagði Hrannar.

Hrannar Guðmundsson
Hrannar Guðmundsson Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Gestirnir fengu tvisvar sinnum tvær mínútur á svipuð atvik í hægra horninu þar sem dæmdur hafði verið ruðningur á Stjörnuna og leikmenn þeirra skutu engu að síður á markið. Í fyrra skiptið var það Pétur Árni sem var að reyna að minnka í eitt mark og síðan Starri sem var að reyna að jafna leikinn þegar fimm mínútur voru eftir.

„Það var einbeitingarskortur, mér fannst þetta lokadæmi alltof soft, mér fannst það líta út eins og tækifæri til að eyðileggja leikinn. Hann var í loftinu þegar flautið kemur eins og við mátum þetta og það fannst okkur glórulaus dómur.“

Stjarnan vann góðan sigur á HK í fyrstu umferðinni en HK-ingar unnu FH í gær. Hvernig finnst Hrannari hans lið vera stemmt í byrjun leiktíðar?

„Mjög flott, við erum með drullugott lið og drullu góðan hóp, það vantar líka Hjálmtý, Egil og Sigga Dan hjá okkur. Við erum með geggjað lið og ég hef ótrúlega mikla trú á þessum hóp sem ég held að eigi eftir að gera flotta hluti en við verðum líka að hirða svona sigra. Við tökum einn leik fyrir í einu, lentum í sjöunda sæti í fyrra og okkur langar hærra. Við þurfum að bæta okkur og taka einn leik fyrir í einu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert