„Var auðvitað aðeins sætara“

Janus Daði Smárason í leik með Pick Szeged gegn Magdeburg …
Janus Daði Smárason í leik með Pick Szeged gegn Magdeburg í síðustu viku. Ljósmynd/Aleksandar Djorovic

„Eftir á að hyggja var frábært að vinna þennan leik,“ sagði Janus Daði Smárason, landsliðsmaður í handknattleik, um frækinn sigur Pick Szeged á Magdeburg í fyrstu umferð B-riðils í Meistaradeild Evrópu í síðustu viku.

„Við erum þannig séð með nýtt lið. Við erum með marga nýja leikmenn, nýjan þjálfara og undirbúningstímabilið var styttra.

Það var rosalega jákvætt að vinna upp á andrúmsloftið og tilfinninguna hjá liðinu, að vinna fyrsta heimaleik með okkar áhorfendum og gegn svona sterku liði eins og Magdeburg,“ sagði Janus Daði í samtali við mbl.is.

Hann gekk til liðs við Pick Szeged í sumar eftir eins árs dvöl hjá Magdeburg, þar sem Janus Daði varð Þýskalands- og bikarmeistari. Mætti Selfyssingurinn fyrrverandi liðsfélögum sínum Ómari Inga Magnússyni og Gísla Þorgeiri Kristjánssyni svo í Meistaradeildinni.

Erum að gera eitthvað rétt

Lauk leiknum með heimasigri Pick Szeged, 31:29. Janus Daði viðurkenndi að það hafi verið ánægjulegt að vinna sína gömlu félaga.

„Það var auðvitað aðeins sætara af því að ég var þar á síðasta tímabili en ég held að ég hefði fundið meira fyrir því ef við hefðum tapað, það hefði verið sárt.

En með því að vinna fer fókusinn svolítið af því að þetta sé Magdeburg og meira að því að við unnum sem lið og erum allavega að gera eitthvað rétt,“ sagði hann.

Pick Szeged heimsækir Barcelona í annarri umferð B-riðils Meistaradeildarinnar klukkan 18.45 í kvöld.

Ítarlegt viðtal við Janus Daða birtist í Morgunblaðinu á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert