Yfirburðasigur Aftureldingar gegn KA

Harri Halldórsson úr Aftureldingu skýtur að marki KA en Kamil …
Harri Halldórsson úr Aftureldingu skýtur að marki KA en Kamil Pedryc er til varnar. Eyþór Árnason

Afturelding og KA áttust við í þriðju umferð Íslandsmóts karla í handbolta að Varmá í Mosfellsbæ í kvöld og lauk leiknum með sigri Aftureldingar 33:22.

Eftir leikinn er Afturelding með 4 stig en KA er ennþá án stiga en bæði liðin hafa leikið þrjá leiki í deildinni.

Leikurinn í kvöld fór heldur rólega af stað. Einar Rafn Eiðsson skoraði fyrsta mark leiksins með fallegu undirhandarskoti. Hallur Arason jafnaði um hæl fyrir heimamenn. Þegar tæpar 10 mínútur voru liðnar af fyrri hálfleik tóku gestirnir úr KA leikhlé en þá var staðan 5:2 fyrir Aftureldingu.

Eftir það tóku leikmenn KA við sér og jöfnuðu leikinn í 5:5, 6:6 og svo í stöðunni 9:9. Þá var komið að Mosfellingum. Þeir náðu fjögurra marka forskoti í stöðunni 14:10 áður en KA menn byrjuðu að saxa aftur á forskotið.

Staðan í hálfleik 17:14 fyrir Aftureldingu.

Ihor Kopyshynski skoraði 5 mörk í fyrri hálfleik, þar af 2 úr vítaskotum. Harri Halldórsson skoraði sömuleiðis 5 mörk. Brynjar Vignir Sigurjónsson varði 5 skot og Einar Baldvin Baldvinsson eitt skot í fyrri hálfleik fyrir heimamenn.

Í liði KA skoraði Patrekur Stefánsson 3 mörk og varði Bruno Bernat 5 skot.

Heimamenn úr Mosfellsbæ buyrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti og eftir 6 mínútna leik í seinni hálfleik var munurinn orðinn 7 mörk, staðan 22:15 og þá tóku gestirnir úr KA leikhlé.

Leikhlé KA manna skilaði ekki miklu því Afturelding jók muninn í 8 mörk í stöðunni 23:15. Leikmenn Aftureldingar gerðu gott betur, yfirspiluðu lið KA og komust í 10 marka forystu í stöðunni 27:17 og aðeins 13 mínútur liðnar af seinni hálfleik. Þá tóku gestirnir sitt þriðja leikhlé sem skilaði í raun engu.

Mosfellingar komust 11 mörkum yfir í stöðunni 29:18 og 16 mínútur liðnar af seinni hálfleik. Það má því segja að leiknum hafi í raun verið lokið á þessum tímapunkti því Mosfellingar juku muninn jafnt og þétt. Þegar 6 mínútur voru eftir af leiknum var staðan 32:19 fyrir Aftureldingu, 13 marka munur og heimamenn í sókn. Eftir þetta setti Gunnar Magnússon þjálfari alla sína yngstu leikmenn inn á völlinn og þá tókst leikmönnum KA að minnka muninn í 11 mörk.

Fór svo að leiknum lauk með sigri Aftureldingar eins og áður segir 33:22

Markahæstir í liði Aftureldingar voru þeir Ihor Kopyshynski með 7 mörk, þar af 4 úr vítaskotum. Harri Halldórsson skoraði 6 mörk. Einar Baldvin Baldvinsson varði 7 skot í marki heimamanna og Brynjar Vignir Sigurjónsson 5 skot.

Í liði KA skoraði Patrekur Stefánsson 4 mörk og vörðu markverðir KA 10 skot.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Afturelding 33:22 KA opna loka
60. mín. Sveinur Olafsson (Afturelding) skoraði mark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert